Jafntefli gegn Lettum í Laugardalnum

Ísland og Lettland gerðu 2:2 jafntefli í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag. Var um næstsíðasta leik Íslands að ræða en liðið er þegar búið að tryggja sæti sitt í lokakeppninni. Tékkar eiga nú alla möguleika á því að vinna riðilinn.

Ísland er enn í efsta sæti riðilsins með 21 stig en Tékkar eru með 19 stig og eiga nú tvo leiki til góða. Ísland á einn leik eftir en hann er gegn Tyrklandi á útivelli hinn 13. október. 

Íslenska liðið hefur nú leikið alla sína heimaleiki í undankeppninni. Niðurstaðan er svolítið furðuleg, þ.e.a.s liðið gerði jafntefli gegn Kasakstan og Lettlandi en vann stóru þjóðirnar Holland, Tékkland og Tyrkland. 

Íslendingar voru mun betri en Lettar í fyrri hálfleik sem var býsna fjörugur. Kolbeinn Sigþórsson skoraði af stuttu færi strax á 5. mínútu eftir að Vanins markvörður varði aukaspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar. Gylfi skoraði sjálfur á 27. mínútu. Fékk boltann á eigin vallarhelmingi, keyrði upp að vítateignum og skoraði með lúmsku innanfótarskoti utan teigs.

Í þessari stöðu 2:0 var því bjart yfir Laugardalnum en smám saman þykknaði upp í síðari hálfleik.  Í upphafi síðari hálfleik minnkuðu Lettar muninn eða 49. mínútu þegar Aleksandrs Cauna skoraði með skoti í stöngina og inn eftir góða sókn. Jöfnunarmarkið kom á 68. mínútu þegar Valerijs Sabala skoraði með góðu skoti úr teignum eftir að Ísland tapaði boltanum á miðsvæðinu. 

Íslensku landsliðsmennirnir léku að mörgu leyti vel í fyrri hálfleik en sýndu á sér hlið í síðari hálfleik sem þeir hafa ekki sýnt í þessari undankeppni. Voru þá værukærir og baráttugleðina virtist vanta. Sjálfsagt saknaði liðið leiðtogans Arons Einars Gunnarsson í síðari hálfleik. Auk þess má nefna að íslenska liðið var nokkuð sókndjarft á köflum og ef til vill tefldu okkar menn of djarft. 

Aron og Jón Daði Böðvarsson gátu ekki tekið þátt í leiknum. Aron í leikbanni og Jón Daði var ekki leikfær. Þá fór miðvörðurinn Kári Árnason meiddur af velli á 17. mínútu eftir að hafa fengið byltu eftir skallaeinvígi. 

Ísland 2:2 Lettland opna loka
90. mín. Valerijs Sabala (Lettland) á skot sem er varið Ágætt skot rétt utan vítateigs en Hannes varði vel.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert