Leikurinn líktist körfubolta

Sölvi Geir og Kolbeinn Sigþórsson reyna að skalla boltann í …
Sölvi Geir og Kolbeinn Sigþórsson reyna að skalla boltann í leiknum. mbl.is/Golli

Varnarjaxlinn Sölvi Geir Ottesen var svekktur eftir 2:2 jafntefli Íslands gegn Lettum í undankeppni EM í dag. Sölvi hóf leikinn á varamannabekknum en kom inn á eftir 15 mínútna leik þegar Kári Árnason haltraði af velli eftir að hafa fengið högg á bakið.

„Þetta var mjög svekkjandi í ljósi þess að við vorum 2:0 yfir og höfðum fulla stjórn á leiknum,“ sagði Sölvi að leik loknum.

Hann sagði að Lettarnir hafi fengið of mikið svæði í skyndisóknum sínum og það hafi orðið íslenska liðinu að falli í dag. „Þeir settu erfiða bolta inn í teig og fengu of mikinn tíma með boltann fyrir utan teiginn. Þetta skapaði oft á tíðum mikla hættu.“

Sölva fannst landsliðsmenn ekki kærulausir í aðdraganda leiksins þrátt fyrir að sætið á EM hafi verið tryggt. „Kannski vorum við kærulausir á meðan leiknum stóð. Við fórum að sækja og opna okkur í stöðunni 2:0 sem við áttum í raun og veru ekki að gera. Við hefðum frekar átt að halda stöðunni eins og hún var.“

Hann segir að það hafi ekki verið erfitt að koma inn í leikinn. „Það var ekkert erfitt að koma inn á í leikinn. Þetta var eins og körfubolti eftir að ég kom inn á. Það tekur aðeins á en það var bara fínt að koma inn í þetta,“ sagði Sölvi Geir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert