Af hverju man ég ekki hvað þeir heita?

„Þetta er breyting, en hvernig hún verður þarf bara að koma í ljós. Auðvitað söknum við Hannesar en það kemur maður í manns stað,“ sagði Ragnar Sigurðsson, miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem mun ekki leika fyrir framan Hannes Þór Halldórsson í lokaleiknum í undankeppni EM annað kvöld.

Ragnar mundi reyndar ekki alveg nöfnin á þeim sem gætu komið í stað Hannesar, í marki Íslands gegn Tyrkjum, en mundi á endanum að þeir Ögmundur Kristinsson og Gunnleifur Gunnleifsson hafa verið varamenn fyrir Hannes. Ragnar tekur undir að mikilvægi Hannesar felist í fleiru en því hve góður markvörður hann hefur verið í keppninni:

„Hann er að fikta með alls konar hluti, bíómyndir og ég veit ekki hvað. Það er mjög góður talandi í Hannesi í klefanum fyrir leiki, svo að sjálfsögðu söknum við þess að hafa hann ekki með, en ég hef fulla trú á markvörðunum sem eru hérna,“ sagði Ragnar.

Ragnar hefur ekki áhyggjur af því að leikurinn við Tyrki hér í Konya annað kvöld verði framhald af seinni hálfleiknum við Letta á laugardaginn, þar sem Ísland missti niður 2:0-forystu:

„Við höfum allir lent í því að eiga lélega leiki, og sem betur fer var þetta bara einn lélegur hálfleikur. Það skiptir ekki máli í næsta leik. Við ætlum að standa okkur, og það kemur Lettaleiknum í raun ekkert við, en auðvitað hugsar maður með sér að maður vilji bæta fyrir svona skít,“ sagði Ragnar.

Ragnar Sigurðsson er fastamaður og lykilhlekkur í vörn íslenska liðsins.
Ragnar Sigurðsson er fastamaður og lykilhlekkur í vörn íslenska liðsins. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert