Ísland hefur ráðið ferðinni

Fatih Terim hrósaði Íslandi fyrir sína frammistöðu í undankeppni EM.
Fatih Terim hrósaði Íslandi fyrir sína frammistöðu í undankeppni EM. AFP

„Ég vil óska Íslandi til hamingju með að komast í fyrsta sinn á EM,“ sagði Fatih Terim, þjálfari Tyrklands í knattspyrnu karla, þegar hann tók til máls á fréttamannafundi fyrir leik Tyrklands og Íslands í lokaumferð undankeppni EM, sem fram fer hér í Konya annað kvöld.

„Ég óska Lars Lagerbäck og Heimi Hallgrímssyni til hamingju, og allri íslensku þjóðinni. Liðið hefur ráðið ferðinni [e. dominated] í riðlinum, þrátt fyrir að í honum séu lið eins og við, Tékkar og Hollendingar. Íslendingar eiga sinn árangur fyllilega skilið og alla virðingu,“ sagði Terim.

Hann benti á að þrír möguleikar væru nú í stöðunni fyrir Tyrkland; að liðið tapaði á morgun og Holland ynni, sem þýddi að Tyrkland væri úr leik. Að Tyrkland næði jafntefli eða sigri og kæmist í umspil, eða að Tyrkland kæmist beint á EM sem liðið með bestan árangur í 3. sæti: „Við höfum fulla trú á að það takist,“ sagði Terim, en til þess þurfa Tyrkir að vinna og treysta á önnur úrslit, meðal annars að Kasakstan vinni Lettland á útivelli.

Maður finnur til í hjartanu

Þjóðarsorg ríkir nú í Tyrklandi vegna þeirra vofveiflegu atburða sem urðu í Ankara um helgina þegar að minnsta kosti 95 manns létu lífið í sprengjuárás sem gerð var á friðargöngu. Terim var spurður hvort ekki væri hálfómögulegt að fá leikmenn til að hugsa um fótbolta á svona stundu:

„Auðvitað er þetta erfið staða. Landsliðið er hluti af þjóðinni og vill gefa sem best skilaboð á fótboltavellinum. Að heyra svona og sjá svona er ekki gott. Ég veit eiginlega ekki hvernig við fáum liðið til að einbeita sér, en ég held að Guð vaki yfir okkur,“ sagði Terim, og vöknaði um augun:

„Maður heyrir sögurnar, að 9 ára barn hafi látist í sprengingu, eða 3 ára barn orðið fyrir byssukúlu, og maður finnur til í hjartanu. Það er til þetta orðatiltæki um að lífið haldi áfram, en ég hata þetta orðatiltæki. Það er engin kjörstaða að ræða þessa hluti á fréttamannafundi fyrir fótboltaleik, en svona er þetta bara og ég þakka fyrir spurninguna,“ sagði Terim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert