Sé engan skaða við þetta

„Ég er ekki mikið að kippa mér upp við þetta. Þetta er hluti af leiknum, líklega,“ sagði Alfreð Finnbogason, framherji landsliðsins í knattspyrnu, sem fékk mörg miður skemmtileg skilaboð frá tyrkneskum stuðningsmönnum á samfélagsmiðlinum Twitter í gær.

Alfreð hafði sent frá sér mynd af stuðningskveðju frá Hollendingum, og skrifaði með henni texta þess efnis að Hollendingar „þyrftu ekki að hafa áhyggjur“, en eina von Hollands um að komast í lokakeppni EM veltur á því að Ísland vinni Tyrkland. Alfreð á vini í Hollandi eftir að hafa spilað þar við afar góðan orðstír með Heerenveen:

„Þeir voru strax byrjaðir að senda manni skilaboð eftir síðasta leik þegar sú skrýtna staða kom upp að Hollendingar þyrftu að treysta á okkur Íslendinga. En ég held að við ættum bara að hugsa um okkur og þeir um sig. Við förum í þennan leik til að vinna, eins og í alla aðra,“ sagði Alfreð. Rætt er við hann í meðfylgjandi myndskeiði sem tekið var upp á hóteli landsliðsins í Konya í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert