Í sigti Man. Utd fyrir Íslandsleikinn

Hakan Calhanoglu með boltann í leiknum við Tékka á laugardag.
Hakan Calhanoglu með boltann í leiknum við Tékka á laugardag. AFP

Tyrkneskir fjölmiðlar eru ekki á einu máli um það hvernig byrjunarlið Tyrkja verði gegn Íslandi í kvöld, í lokaumferð undankeppni EM karla í knattspyrnu. Leikurinn hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir Tyrki en með sigri gæti liðið hugsanlega komist beint á EM og jafntefli tryggir liðinu sæti í umspili.

Tyrkland hefur unnið góða sigra á Tékklandi og Hollandi í síðustu leikjum sínum. Flestir virðast reikna með óbreyttu byrjunarliði í kvöld, frá sigrinum á Tékkum á laugardag, en sumir telja að Volkan Sen eða Gökhan Töre komi inn í liðið.

Á meðal helstu leikmanna Tyrkja má nefna Hakan Calhanoglu, sem skoraði seinna mark liðsins gegn Tékkum. Hann hefur verið þráfaldlega orðaður við Manchester United sem sagt er þurfa að punga út 30 milljónum punda til að fá þennan sóknarsinnaða miðjumann frá Leverkusen. Barcelona er þó einnig sagt hafa hann í sigti sínu. Calhanoglu, sem er 21 árs, hefur allan sinn feril leikið í Þýskalandi og hann skoraði 8 mörk fyrir Leverkusen í þýsku 1. deildinni í fyrra.

Arda Turan er fyrirliði Tyrkja en hann hefur ekkert spilað með Barcelona eftir að hann samdi við Evrópumeistarana í sumar, vegna félagaskiptabanns Barcelona sem lýkur um áramótin. Búist er við að Turan verði stillt upp á vinstri kanti, Ozan Tufan hægra megin og Calhanoglu þar á milli. 

Burak Yilmaz hefur verið að glíma við meiðsli og því líklegra að Cenk Tosun haldi sæti sínu í fremstu víglínu.

Líklegt byrjunarlið Tyrkja:

Mark: Volkan Babacan (Basaksehir).

Vörn: Sener Özbayrakli (Fenerbahce), Serdar Aziz (Bursaspor), Hakan Balta (Galatasaray), Caner Erkin (Fenerbahce).

Miðja: Selcuk Inan (Galatasaray), Oguzhan Özyakup (Besiktas), Hakan Calhanoglu (Leverkusen).

Sókn: Ozan Tufan (Fenerbahce), Cenk Tosun (Besiktas), Arda Turan (Barcelona).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert