Emil rær á önnur mið

Emil Ásmundsson hefur ákveðið að yfirgefa hebúðir Brighton.
Emil Ásmundsson hefur ákveðið að yfirgefa hebúðir Brighton.

Knattspyrnumaðurinn Emil Ásmundsson er á förum frá enska félaginu Brighton & Hove Albion, en þetta staðfesti hann í samtali við vefsíðuna Fótbolta.net í dag.

Emil hefur verið að glíma við meiðsli í rúmt ár, en hann var að brjóta sér leið inn í aðallið Brighton þegar hann meiddist. 

Emil er tvítugur miðjumaður sem er uppalinn hjá Fylki, en hann gekk í raðir Brighton í byrjun árs 2013.

„Ég var alveg frá í 14 mánuði. Ég byrjaði að æfa í lok september og það tekur tíma að komast í gang eftir svona meiðsli," sagði Emil við Fótbolta.net í dag.

„Æfingarnar hafa gengið vel, en við tókum sameiginlega ákvörðun í nóvember að ég myndi leita á önnur mið þar sem ég er ekki að fara að ná inn í aðalliðið á þessu tímabili. Ég held að það sé best fyrir mig í staðinn fyrir að vera í varaliðsbolta í hálft ár í viðbót," sagði Emil enn fremur í viðtalinu.

Emil hefur ekki ákveðið hver næsti viðkomustaður verður á ferli hans, en hann kom heim til Íslands í gær og veltir nú fyrir sér möguleikum sínum hér heima og erlendis.

„Ég er 90% heill og þarf kannski nýtt umhverfi til að komast af stað. Ég ætla að skoða mín mál út desember og tek vonandi ákvörðun sem fyrst. Ef það er eitthvað spennandi sem býðst þá skoða ég það. Það er einhver áhugi erlendis og maður þarf að vega og meta hvað er best að gera," sagði Emil um framhaldið í viðtalinu.  

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert