Geir hitti FIFA-frambjóðendur

Geir Þorsteinsson, fyrir miðju, mun greiða atkvæði um nýjan forseta …
Geir Þorsteinsson, fyrir miðju, mun greiða atkvæði um nýjan forseta FIFA undir lok febrúar. mbl.is/Golli

Geir Þorsteinsson og aðrir formenn knattspyrnusambandanna á Norðurlöndunum fengu í dag tækifæri til að kynnast fjórum af fimm frambjóðendum til forseta FIFA, en kosið verður í embættið í febrúar á næsta ári.

Frambjóðendurnir sátu fyrir svörum á fundi með formönnunum í Danmörku í dag. Mættir voru þeir Jerome Champagne, Gianni Infantino, prinsinn Ali bin Hussein og Toky Sexwale. Fundað verður í desember með fimmta og síðasta frambjóðandanum, sjeiknum Salman Bin Ibrahim Al-Khalifa.

Á fundinum spurðu Geir og kollegar hans meðal annars út í málefni tengd Norðurlöndunum, sem og ýmislegt varðandi stjórnunarhætti, gagnsæi, mannréttindi og stöðu kvenna í knattspyrnu.

Formennirnir hafa enga ákvörðun tekið varðandi það hvaða frambjóðandi hugnast þeim best, og munu nú ræða þessi mál innan sinna sambanda. Þeir áætla að hittast í Zurich 24. febrúar, fyrir kjörið, til að sameinast um að kjósa einn fulltrúa sé þess kostur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert