Eiður hættir líklega eftir EM

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eiður Smári Guðjohnsen segir fátt geta komið í veg fyrir að hann hætti að leika með íslenska landsliðinu í knattspyrnu eftir lokakeppni EM í Frakklandi sem fram fer næsta sumar. Þetta kemur fram í bókinni Áfram Ísland, sem er nýkomin út.

„Það er 99,9% öruggt að ég hætti með landsliðinu eftir EM. Ég er kominn yfir þann punkt að geta hætt á toppnum,“ segir Eiður í bókinni.

Eiður segir að óháð því hvort hann muni spila áfram eður ei þá muni næsti starfsvettvangur hans tengjast knattspyrnu á einn eða annan hátt.

„Það er óhjákvæmilegt, þetta hefur verið of stór hluti af lífinu. Svo eigum við þrjá drengi sem eru á kafi í fótbolta þannig að maður verður mikið á vellinum,“ segir Eiður um framtíð sína.

Eiður er að ákveða næstu skref sín á ferli sínum þessa dagana og hefur hug á að færa sig um set til Evrópu, en hann hefur leikið með Shijiazhuang Ever Bright í Kína undanfarna mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert