Kolbeinn stráði salti í sár Cillessen

Kolbeinn Sigþórsson
Kolbeinn Sigþórsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Í bókinni Áfram Ísland sem nýverið kom út eru margar skemmtilegar sögur frá leið íslenska landsliðsins í knattspyrnu karla á EM 2016. Þar er meðal annars skemmtileg frásögn frá því hvernig Kolbeinn Sigþórsson stríddi hollenska markverðinum Jasper Cillessen eftir að Ísland vann Holland á Laugardalsvelli.

Kolbeinn var leikmaður Ajax í Hollandi þegar Ísland og Holland mættust á Laugardalsvellinum í fyrri leik liðanna í undankeppninni haustið 2014. Nokkrir samherjar Kolbeins úr Ajax voru í hollenska liðinu.

Íslenska liðið bar sigur úr býtum í  leiknum eins og flestir muna, en lokatölur urðu 2-0 Íslandi í vil. Kolbeinn mætti kampakátur á næstu æfingar hjá Ajax. Þar skaut hann góðlátlega á samherja sína og þá sérstaklega Jasper Cillessen, markvörð hollenska liðsins.

„Ég var svolítið að pirra hann eftir leikinn. Kallaði hann son minn og lét hann ekki í friði í klefanum og á æfingum. Hann fékk mikið að heyra það frá mér,“ segir Kolbeinn í bókinni.

„Ég varð svolítið smeykur fyrir seinni leikinn því ég var búinn að ganga svo langt. Ég vissi að ef þeir myndu vinna þann leik fengi ég þetta allt í andlitið. Sem betur fer unnum við seinni leikinn líka,“ segir Kolbeinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert