Í 300 leikina á mettíma

Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Þeir knattspyrnumenn sem ná þeim stóra áfanga að spila 300 deildaleiki á ferlinum eru yfirleitt komnir á fertugsaldurinn þegar þeim áfanga er náð. Að minnsta kosti gildir það um íslenska knattspyrnumenn.

Landsliðsfyrirliði Íslands, Aron Einar Gunnarsson, er á öðru róli en flestir í þeim efnum því þó hann sé aðeins 26 ára gamall náði hann því takmarki á laugardaginn.

Aron lék sinn 300. deildaleik á ferlinum þegar Cardiff tók á móti Burnley í ensku B-deildinni og hann hélt upp á áfangann með því að skora fyrra mark velska liðsins í leiknum, sem endaði 2:2.

Aron leikur nú sitt áttunda tímabil á Englandi og það fimmta með Cardiff en áður spilaði Akureyringurinn þrjú ár með Coventry. Hann á að baki sex tímabil í B-deildinni og á þeim öllum hefur hann spilað minnst 40 af 46 leikjum síns liðs. Eini veturinn til þessa þar sem Aron hefur spilað minna en fjörutíu leiki er 2013-14 þegar Cardiff var í úrvalsdeildinni en þá spilaði hann 23 af 38 leikjum liðsins.

Þó 12 af þeim 20 leikmönnum sem léku fyrir Íslands hönd í undankeppni EM séu eldri en Aron hafa aðeins tveir þeirra spilað fleiri leiki á ferlinum.

Í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag er farið yfir þetta afrek Arons og hann borinn saman við aðra leikmenn íslenska landsliðsins hvað leikjafjölda varðar með félagsliðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert