Rauð spjöld á KR og sigurmark í lokin

Ívar Örn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Víking og það …
Ívar Örn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Víking og það fyrra var stórglæsilegt. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Víkingar sigruðu KR, 3:2, á afar dramatískan hátt í Reykjavíkurmótinu í knattspyrnu í kvöld þegar liðin mættust í Egilshöllinni en Ívar Örn Jónsson skoraði þar sigurmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma. Þá höfðu KR-ingar fengið tvö rauð spjöld í leiknum.

KR byrjaði betur og náði forystunni strax á 9. mínútu þegar Pálmi Rafn Pálmason skoraði, 1:0. Víkingar náðu að jafna á 41. mínútu þegar Ívar skoraði stórglæsilegt mark með miklum þrumfleyg af 30 metra færi og staðan var 1:1 í hálfleik.

Strax á fimmtu mínútu síðari hálfleiks fékk Gunnar Þór Gunnarsson, varnarmaður KR, rauða spjaldið fyrir að brjóta á Víkingi sem var sloppinn innfyrir vörnina.

Víkingar voru fljótir að nýta sér þetta því fimm mínútum síðar skoraði Stefán Þór Pálsson og kom þeim í 2:1.

Tíu KR-ingar fengu hinsvegar vítaspyrnu á 82. mínútu. Aron Bjarki Jósepsson skoraði úr henni, 2:2, og virtist hafa tryggt KR stig. 

En á þriðju mínútu uppbótartímans braut Sindri Snær Jensson markvörður KR af sér og fékk rauða spjaldið. Vítaspyrna að auki - Hörður Fannar Björgvinsson kom í mark Vesturbæinga en réð ekki við spyrnu Ívars og Víkingar fögnuðu sigri.

Þetta var fyrsti leikur KR í mótinu en Víkingur hafði áður gert jafntefli við ÍR, 3:3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert