Þór varð Norðurlandsmeistari

Þórsarar fagna öðru marka sinna í gærkvöld.
Þórsarar fagna öðru marka sinna í gærkvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Þór sigraði KA, 2:1, í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins í knattspyrnu karla í Boganum á Akureyri í gærkvöld og varð með því Norðurlandsmeistari í sjötta skipti en mótið fór nú fram í fjórtánda sinn.

KA, sem vann mótið í fyrra, hefur sigrað sjö sinnum og Völsungur einu sinni.

KA menn byrjuðu leikinn mun betur og komust Þórsarar varla að miðjulínunni fyrstu 10 mínúturnar.  En smátt og smátt fóru þeir að svara fyrir sig og á 24. mínútu átti Birkir Heimisson góða sendingu á fjærstöng þar sem Ármann Pétur Ævarsson var mættur og skallaði hann boltann laglega í fjærhornið. Fannar Hafsteinsson í marki KA átti ekki möguleika á því að verja og staðan 1:0 Þórsurum í vil í hálfleik.

Á 59. mínútu fengu Þórsarar hornspyrnu.  Boltanum var spyrnt á nærstöng og þar var mættur Konráð Freyr Sigurðsson og hann skallaði boltann glæsilega í netið framhjá markmanni KA og staðan orðin vænleg fyrir Þórsara, 2:0.

Eftir þetta bökkuðu Þórsarar og KA-menn gengu á lagið og eftir þunga sókn barst boltinn til Hrannars Björns Steingrímssonar rétt utan vítateigs og hann hamraði boltann í hornið hjá Þór og minnkaði muninn í 2:1.

Það sem eftir lifði leiks sóttu KA-menn stíft að marki Þórsara en inn vildi boltinn ekki.  Þórsarar stóðust áhlaupið og stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins í ár.

Sigurlið Þórs.
Sigurlið Þórs. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert