Leiknir Reykjavíkurmeistari

Reykjavíkurmeistarar Leiknis eftir sigurinn í kvöld.
Reykjavíkurmeistarar Leiknis eftir sigurinn í kvöld. mbl.is/Golli

Leiknir og Valur mættust í úrslitaleik Reykjavíkurmóts karla í knattspyrnu í kvöld, en leikið var í Egilshöllinni í Grafarvogi. 

Þessi sömu lið mættust í úrslitum Reykjavíkurmótsins í fyrra, en þá bar Valur sigur úr býtum með þremur mörkum gegn engu. Þá voru Sigurður Egill Lárusson, Kristinn Freyr Sigurðsson og Þórður Steinar Hreiðarsson á skotskónum fyrir Val.

Leiknir höfðu hins vegar betur að þessu sinni, en lokatölur í leiknum urðu 4:1 Leikni í vil. 

Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val yfir á 14. mínútu leiksins, en Kristinn Freyr skoraði af feykilegu öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var vegna brots á Daða Bergssyni sem lék sem lánsmaður hjá Leikni síðasta sumar. 

Elvar Páll Sigurðsson jafnaði svo metin fyrir Leikni um miðbik fyrri hálfleiks með fallegu marki. Elvar Páll sneri laglega á varnarmenn Vals og lagði boltann snyrtilega í fjærhornið framhjá Antoni Ara Einarssyni sem stóð á milli stanganna í marki Vals. 

Ingvar Ásbjörn Ingvarsson kom síðan Leikni yfir með föstu skoti sem rataði í nærhornið á marki Vals. Ingvar Ásbjörn gekk nýverið til liðs við Leikni, en hann er á láni frá FH. 

Þar við sat í fyrri hálfleik og leikmenn Leiknis gengu með 2:1 forystu í farteskinu þegar flautað var til hálfleiks. 

Ingvar Ásbjörn var svo aftur á ferðinni á 52. mínútu leiksins þegar hann tvöfaldaði forystu Leiknismanna og aftur skoraði Ingvar með góðu og hnitmiðuðu skoti. 

Sindri Björnsson rak svo síðasta naglann í líkkistu Vals með fjórða marki Leiknis úr vítaspyrnu sem dæmd var á Andra Fannar Stefánsson fyrir brot á Ólafi Hrannari Kristjánssyni.

Kristján Guðmundsson og Jörundur Áki Sveinsson byrja því vel á sínu fyrsta keppnistímabili við stjórnvölin hjá Leikni, en þeir tóku við Breiðholtsliðinu af Frey Alexanderssyni og Davíð Snorra Jónassyni eftir síðasta tímabil. 

Þetta er í annað skipti sem Leiknir verður Reykjavíkurmestari í knattsprynu í karlaflokki, en liðið varð síðast Reykjarvíkurmeistari árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert