Sænsku meistararnir með tilboð í Hólmbert?

Hólmbert Aron Friðjónsson í leik gegn Fjölni síðasta sumar.
Hólmbert Aron Friðjónsson í leik gegn Fjölni síðasta sumar. mbl.is/Eva Björk

Sænska meistaraliðið Norrköping vill fá framherjann Hólmbert Aron Friðjónsson frá KR áður en nýtt keppnistímabil hefst í Svíþjóð.

Hólmbert fór í lok janúar og skoðaði aðstæður hjá Norrköping auk þess að æfa með liðinu, og nú hefur Norrköping hafið viðræður við KR um kaup á leikmanninum, samkvæmt frétt vefmiðilsins 433.is. Þar segir að KR hafi þegar hafnað fyrsta tilboði frá Norrköping, en Jónas Kristinsson framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar KR segir hins vegar að félagið eigi von á tilboði.

Hólmbert kom til KR á miðju sumri í fyrra og skrifaði undir samning til ársins 2017. Hann hélt út í atvinnumennsku eftir frábært tímabil með Fram árið 2013 og gekk í raðir Celtic í Skotlandi. Þaðan fór hann að láni til danska félagsins Bröndby áður en hann sneri aftur til Íslands.

Eftir síðustu leiktíð hefur KR látið framherjann Þorstein Má Ragnarsson fara en félagið samdi í síðustu viku við danska framherjann Morten Beck. Gary Martin er áfram á mála hjá félaginu en samkvæmt 433 er uppi orðrómur um að Martin gæti farið frá KR, rétt eins og síðasta sumar, og eru Víkingar í Reykjavík sagðir hafa rætt við KR um Englendinginn. Jónas vildi ekki staðfesta það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert