Eiður vill vera með frá upphafi

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Umboðsmaðurinn Magnús Agnar Magnússon hjá umboðsskrifstofunni Total Football segir knattspyrnumanninn Eið Smára Guðjohnsen vera eftirsóttan í öllum löndum Skandinavíu í samtali við Tipsbladet í Danmörku í dag.

„Það er áhugi frá öllum löndum í Skandinavíu, þar er Danmörk meðtalin. Eiður hefur ekki gert nein langtímaplön en það er klárt að hann vill fara á EM í sumar, og þess vegna þarf hann að finna góðan klúbb," sagði Magnús Agnar.

„Hann þarf kannski ekki að spila 90 mínútur í hverjum leik en hann vill hafa áhrif. Í því samhengi hentar Skandinavía vel hans þörfum," sagði Magnús.

„Við höfum talað við nokkur félög síðustu dag og Eiður mun taka ákvörðun fljótlega. Deildin byrjar fljótlega í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og hann vill gjarnan vera með frá upphafi," sagði Magnús.

Eiður Smári er 37 ára gamall og lék síðast með Shijazhuang Ever Bright í Kína og þar áður með Bolton á Englandi. Árið 2014 æfði hann með OB frá Óðinsvé þar sem landsliðsmennirnir Ari Freyr Skúlason og Hallgrímur Jónasson leika en það sama ár æfði hann einnig með FC København.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert