Margrét og Berglind í markastuði

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 5 mörk í kvöld.
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 5 mörk í kvöld. mbl.is/Golli

Margrét Lára Viðarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, hélt uppteknum hætti í kvöld og skoraði fimm mörk þegar Valur vann stórsigur á HK/Víkingi, 9:0, í undanúrslitum Reykjavíkurmóts kvenna í Egilshöllinni.

Margrét skoraði átta af tólf mörkum Vals í riðlakeppninni, og hún hefur því skorað 13 mörk í fjórum leikjum Hlíðarendaliðsins í mótinu, af 21 marki sem liðið hefur skorað.

Rúna Sif Stefánsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Val, Elísa Viðardóttir og Eva María Jónsdóttir eitt hvor. Þær systur Margrét og Elísa komu til Valsliðsins í vetur frá Kristianstad í Svíþjóð.

Fylkir verður mótherji Vals í úrslitaleiknum 25. febrúar eftir sigur á KR, 3:1, í hinum undanúrslitaleiknum í Egilshöllinni í kvöld.

Ásdís Karen Halldórsdóttir, leikmaður U17 ára landsliðs Íslands, kom KR yfir í lok fyrri hálfleik. Í þeim síðari jafnaði Ruth Þórðar fyrir Fylki og Berglind Björg Þorvaldsdóttir tryggði sigurinn með tveimur mörkum.

Berglind hefur þar með gert enn betur en Margrét Lára og skorað 15 af 31 marki sem Fylkir hefur gert í fjórum leikjum í mótinu.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvö mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert