Sandra á leiðinni í Val

Sandra Sigurðardóttir.
Sandra Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Sandra Sigurðardóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu sem hefur leikið með Stjörnunni um árabil, er á leiðinni til Vals og mun samkvæmt heimildum mbl.is ganga formlega til liðs við Hlíðarendafélagið á morgun.

Sandra er 29 ára gömul og í hópi reyndustu knattspyrnukvenna landsins. Hún lék fyrst með liði Þór/KA/KS fyrir norðan en síðan með Stjörnunni frá 2005 og á að baki samtals 208 leiki í efstu deild hér á landi. Hún er sjöunda leikjahæst í deildinni frá upphafi. Þá spilaði Sandra fyrri hluta ársins 2011 með Jitex í sænsku úrvalsdeildinni.

Hún hefur verið sigursæl með Stjörnunni undanfarin ár og orðið þrisvar Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari með liðinu á undanförnum fimm árum.

Sandra hefur verið í íslenska landsliðshópnum um árabil, oftast þó í hlutverki varamarkvarðar, en hefur spilað 11 A-landsleiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert