Íhugar að gefa kost á sér í landsliðið

Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Wolves.
Björn Bergmann Sigurðarson, leikmaður Wolves. Ljósmynd/wolves.co.uk

Björn Bergmann Sigurðarson, framherji Wolverhampton Wanderers í ensku B-deildinni, íhugar að gefa aftur kost á sér í íslenska landsliðið, en hann segir frá þessu í viðtali við Fótbolta.net í dag.

Þessi öflugi framherji er alinn upp á Akranesi þar sem hann lék með ÍA áður en hann hélt út í atvinnumennsku árið 2009 þar sem hann samdi við norska félagið Lilleström.

Wolves keypti hann frá Lilleström árið 2012 og ákvað þá Björn að einbeita sér aðeins að félagsliði en hann hefur ekki gefið kost á sér í íslenska landsliðið síðan Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson tóku við liðinu.

Það gæti þó orðið breyting á en hann er byrjaður að spila á ný með Wolves eftir erfið meiðsli.

Ég myndi hugsa vel um það, allan daginn. Það er alltaf möguleiki. Ef ég stend mig vel áfram þá er ég opinn fyrir öllu. Það væri gaman,“ sagði Björn í viðtali við Fótbolta.net í dag.

Ég er búinn að vera í góðu sambandi við þá báða. Reyndar ekki upp á síðkastið en þegar ég var í Molde og Kaupmannahöfn (á láni 2014 og 2015) þá vorum við í góðu sambandi. Þeir hafa verið frábærir og það kom mér á óvart hvað þeir eru nice náungar.“

Ég hef verið mikið meiddur og hef ekki viljað taka sénsinn á að meiðast aftur. Ég var kannski búinn að vera heill í viku þegar kom landsleikur og þá gæti ég meiðst aftur. Ég vil vita að ég sé fit og gefa þá kost á mér í landsliðið,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert