„Aron hefur mikla hæfileika“

Aron Sigurðarson í leik með Fjölnismönnum.
Aron Sigurðarson í leik með Fjölnismönnum. Eva Björk Ægisdóttir

„Það er frábært að fá hann hingað og við erum ánægðir með hvernig hann stóð sig reynslutíma sínum hér. Hann er með gríðarlega mikla hæfileika þessi drengur,“ sagði Bård Flovik, þjálfari Tromsö í norsku úrvalsdeildinni um Aron Sigurðarson, sem kom til félagsins í dag frá Fjölni.

Aron, sem er fæddur árið 1993, lék 103 leiki og skoraði 23 mörk fyrir Fjölni á tíma sínum þar, en hann hefur bætt sig gríðarlega mikið milli ára.

Hann og Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Vals, æfðu með Tromsö á dögunum en Aron heillaði Flovik og hófust því viðræður í kjölfarið. Aron var svo kynntur fyrir fjölmiðlum í dag en hann gerði þriggja ára samning við félagið.

Hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn Bandaríkjunum á dögunum og skoraði í honum en erfiðisvinnan síðustu ár er að skila sér og það margfalt.

„Hann hefur spilað eitthvað um 40 leiki í efstu deild á Íslandi og yfir 100 leiki í heildina fyrir Fjölni, svo ég sé framtíðar landsliðsmann í honum. Hann passar því vel inn í hugmyndafræði Tromsö,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert