„Sé fram á að spila mikið“

Aron Sigurðarson við undirskrift í dag.
Aron Sigurðarson við undirskrift í dag. Heimasíða Tromsö

„Þetta er stærri deild og fínt að fara hingað til að „kickstarta“ ferlinum. Ég sé fram á að fá að spila mikið hérna og það mun auka líkurnar á að komast á EM sem er allt í einu orðinn möguleiki hjá mér,“ sagði Aron Sigurðarson, nýr leikmaður Tromsö í Noregi, er mbl.is hafði samband við hann í dag.

Aron, sem er 22 ára gamall, gerði í dag þriggja ára samning við norska úrvalsdeildarliðið Tromsö, en hann var á reynslu hjá liðinu í lok janúar. Hann heillaði Bård Flovik, þjálfara liðsins, upp úr skónum og hófust því viðræður við Fjölni um leið.

„Þetta er búið að gerast frekar hratt. Ég fór á reynslu til þeirra fyrir landsleikinn gegn Bandaríkjunum og þá voru þeir búnir að ákveða að fá mig. Það skemmdi svo ekki fyrir að spila landsleikinn og skora mark,“ sagði Aron við mbl.is í dag.

Markmið Arons voru skýr og það var að komast í atvinnumennsku. Hann hefur styrkt sig gríðarlega síðustu tvö árin og er erfiðisvinnan að skila sér. Hann var valinn í íslenska A-landsliðið fyrir leikinn gegn Bandaríkjunum, en hann nýtti sénsinn heldur betur vel með því að skora glæsilegt mark og leggja upp annað í 3:2 tapi.

„Það var alltaf markmiðið að komast í atvinnumennskuna og ef ég myndi ná því þá myndi maður fá einhverja sénsa með landsliðinu. Ég var aldrei að pæla í landsliðinu og bjóst ekki við að kallið myndi koma svona snemma, þannig það var mjög gaman að fá kallið og stoltur að fá að spila fyrir Ísland.“

Þetta kom mjög á óvart. Ég var ekkert að pæla í þessu og var ekki að gera mér neinar vonir. Ég var úti í Noregi þegar ég fékk kallið og það gerði það enn sætara. Þetta var draumur, gaman að fara til Bandaríkjanna með strákunum, spila með Eiði og skoða. Þetta var veisla,“ sagði hann ennfremur.

Aron hefur verið í styrktarþjálfun hjá Guðjóni Erni Ingólfssyni á undirbúningstímabilin en hann æfði mikið hjá honum áður en hann fór til Tromsö. Margir úrvalsleikmenn hafa æft hjá honum en þar má einmitt nefna Eið Smára Guðjohnsen sem samdi við Molde í Noregi í dag.

„Maður verður að reyna að gera eitthvað. Ég hringdi í Gauja og reyndi að koma mér í almennilegt form. Ég er búinn að æfa mikið hjá honum áður en ég fór á reynslu til Tromsö og það hjálpaði mjög mikið.“

Fyrsti leikur Arons og félaga í norsku deildinni er einmitt gegn Molde, en Aron vonast til þess að hann og Eiður mætist.

„Það yrði gaman að fá að spila á móti honum, þannig það er bara spennandi,“ sagði hann að lokum.

Aron hleypur þarna á eftir Michael Bradley, fyrirliða bandaríska landsliðsins.
Aron hleypur þarna á eftir Michael Bradley, fyrirliða bandaríska landsliðsins. Harry How
Aron í leik með Fjölni.
Aron í leik með Fjölni. Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert