„Svíþjóð er með Zlatan og Ísland með Guðjohnsen“

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Molde í norsku úrvalsdeildinni, var í skýjunum með að fá Eið Smára Guðjohnsen í raðir félagsins en hann samdi í dag.

Eiður Smári og Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður hjá Total Football, lentu í Molde í gær til þess að ganga frá samningum við Moldr en það fékkst staðfest fyrir skömmu að Eiður væri búinn að semja við félagið. Hann gerði eins árs samning og mætti svo á fyrstu æfinguna í morgun.

Íslenski landsliðsmaðurinn yfirgaf Shijiazhuang Ever Bright eftir síðustu leiktíð og hafði gefið sér góðan tíma í að skoða tilboð frá erlendum félögum. Hann ákvað á endanum að stökkva á Molde og er Solskjær afar ánægður með íslenska miðjumanninn.

„Svíþjóð er með Zlatan Ibrahimovic, Danmörk er með Michael Laudrup og Ísland er með Eið Smára Guðjohnsen,“ sagði Solskjær við Rbnet.no.

„Hann varð enskur meistari með Chelsea og vann Meistaradeildina með Barcelona. Við erum að fá leikmann með magnaða ferilskrá. Ég meina maðurinn hefur spilað með Thierry Henry og Lionel Messi auk þess sem Pep Guardiola hefur þjálfað hann. Ég er viss um að hver og einasti leikmaður geti lært eitthvað af honum,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert