Vítaspyrna í súginn í Póllandi

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir kom Íslandi yfir á 8. mínútu.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir kom Íslandi yfir á 8. mínútu. mbl.is/Þórður

Ísland og Pólland skildu jöfn, 1:1, í vináttulandsleik kvenna í knattspyrnu sem fram fór í Nieciecza í Póllandi í dag.

Andrea Rán Hauksdóttir, sem lék sinn fyrsta A-landsleik í dag, kom Íslandi yfir á 8. mínútu, beint úr aukaspyrnu frá vítateig, en pólska liðið jafnaði, 1:1, á 17. mínútu með skoti af 35 metra færi eftir að Sonný Lára Þráinsdóttir markvörður fór út fyrir vítateiginn til að stöðva sóknarmann sem var sloppinn einn í gegn.

Sonný Lára, sem einnig lék sinn fyrsta A-landsleik, kom í veg fyrir að Pólverjar næðu forystunni á 44. mínútu en þá varði hún úr dauðafæri þegar pólskur leikmaður slapp einn í gegnum íslensku vörnina.

Síðari hálfleikurinn var heldur tíðindalítill. Íslenska liðið var meira með boltann, án þess þó að skapa sér mörg færi. Ísland fékk þó vítaspyrnu á 70. mínútu leiksins en markvörður Póllands varði spyrnu frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur.

Íslenska liðið var með marga nýliða innanborðs í leiknum í dag og lék án flestallra fastamanna sinna en sex af sautján leikmönnum í hópnum höfðu ekki spilað A-landsleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert