Glæsilegur sigur á Dönum

Dagný Brynjardóttir í baráttu gegn Dönum. Hún er fyrirliði í …
Dagný Brynjardóttir í baráttu gegn Dönum. Hún er fyrirliði í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland vann glæsilegan sigur á Dönum, 4:1, í Algarve-bikarnum í knattspyrnu kvenna í Santo António í Portúgal í dag og er því komið með 6 stig eftir tvo leiki í riðlakeppninni.

Kanada vann Belgíu 1:0 og fyrir lokaumferðina á mánudaginn er Ísland með 6 stig, Kanada 3, Danmörk 3 en Belgía ekkert.

Ljóst er að Íslandi nægir jafntefli í leiknum til að vinna riðilinn og leika til úrslita um gullverðlaunin á mótinu. 

Innbyrðis úrslit ráða ef lið eru jöfn. Ef Kanada vinnur leikinn, þarf Ísland að treysta á að Danmörk vinni Belgíu. Þá yrðu Ísland, Kanada og Danmörk öll jöfn að stigum, með 6 stig hvert, og innbyrðis markatala myndi ráða úrslitum um þrjú efstu sætin.

Ísland byrjaði leikinn af miklum krafti og hápressa liðsins kom Dönum greinilega í opna skjöldu. Þetta skilaði tveimur mörkum snemma. Á 10. mínútu náði Elín Metta Jensen boltanum af varnarmanni og skoraði, og mínútu síðar skallaði danskur varnarmaður í eigið mark eftir hornspyrnu Katrínar Ómarsdóttur frá vinstri.

Katrín fór meidd af velli á 25. mínútu og óvíst er um frekari þátttöku hennar í mótinu.

Staðan var 2:0 í hálfleik en á 52. mínútu minnkaði Nadia Nadim muninn fyrir Dani þegar hún fékk sendingu inní vítateiginn og skoraði af stuttu færi, 2:1.

Ísland jók forskotið í 3:1 á 59. mínútu þegar Sandra María Jessen fékk sendingu frá Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og skorað með fallegu skoti.

Eftir það var íslenska liðið mun líklegra til að bæta við mörkum en Danir að minnka muninn og það fékk nokkur góð færi til þess. Fanndís Friðriksdóttir skaut m.a. í stöng úr aukaspyrnu. Í uppbótartímanum náði svo Hólmfríður Magnúsdóttir boltanum af varnarmanni rétt utan vítateigs, lék inní teiginn og skoraði, 4:1.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

90. Leik lokið með glæsilegum sigri Íslands, 4:1.

90. MARK - 4:1. Hólmfríður Magnúsdóttir innsiglar sigurinn. Hún kemst inní sendingu, leikur inní vítateiginn hægra megin og skorar af harðfylgi. Hennar 37. mark í 102 landsleikjum.

90. Fanndís Friðriksdóttir með sprett upp hálfan völlinn hægra megin og alla leið inní vítateig - tekur fast skot þar en markvörðurinn ver vel.

90. Venjulegur leiktími liðinn - fjórum mínútum  bætt við.

90. Harpa Þorsteinsdóttir með skot rétt innan vítateigs og hárfínt framhjá stönginni vinstra megin.

88. Fanndís Friðriksdóttir tekur spyrnuna en skýtur í stöngina utanverða, hægra megin!

88. Hólmfríður kemst inní sendingu á vítateigslínu Dana og er felld. Sennilega innan vítateigs en dæmd aukaspyrna á línunni!

86. Danskur framherji kemst innfyrir íslensku vörnina en missir boltann frá sér og Sonný Lára hirðir hann með öruggu úthlaupi. Danir fara  beint aftur í sókn og eiga ágætt skot frá vítateig en rétt yfir íslenska markið.

84. Anna Björk Kristjánsdóttir kemur inná fyrir Glódísi Perlu Viggósdóttur. Glódís var sú eina sem byrjaði gegn Belgíu og aftur gegn Danmörku í dag. Sex sem voru í byrjunarliðinu gegn Belgum eru komnar inná sem varamenn í dag.

82. Danir aftur í góðu færi í vítateignum en varnarmaður kemst fyrir skotið og boltanum er komið í burtu.

81. Danir í ágætu færi á  vítateigslínu en skotið er yfir markið.

79. Fanndís  sleppur innfyrir dönsku vörnina en er tækluð niður á  vítateigslínunni. Ekkert dæmt, og kannski er það rétt, en þetta var heldur betur gott færi.

78. Dauðafæri en danski markvörðurinn ver vel hörkuskot Fanndísar Friðriksdóttur.

77. Hornspyrna og klafs í vítateig Dana en að lokum skýtur Glódís Perla hátt yfir markið.

73. Ekki skilaði þetta marki! Fanndís Friðriksdóttir  tekur skotið, boltanum rúllað til hennar, en í varnarvegginn á marklínunni.

72. Ísland fær óbeina aukaspyrnu rétt utan markteigs. Markvörðurinn talinn hafa tekið boltann upp eftir sendingu samherja. Dönsku leikmennirnir raða sér á marklínuna.

70. Elísa Viðarsdóttir fær gula spjaldið fyrir brot.

68. Fanndís Friðriksdóttir kemur fyrir Elíni Mettu Jensen og Sara Björk Gunnarsdóttir kemur fyrir Málfríði Ernu Sigurðardóttur.

63. Hólmfríður, sem spilar sinn 102. landsleik í dag, kemst inní sendingu og brunar inní vítateiginn, sendir inná markteiginn en markvörðurinn er aðeins á undan Hörpu að ná til boltans.

60. Skiptingar. Hólmfríður Magnúsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir koma inná fyrir Berglindi Björg Þorvaldsdóttur og Söndru Maríu Jessen.

59. MARK - 3:1. Berglind Björg Þorvaldsdóttir sendir Söndru Maríu Jessen  í gegn vinstra megin og Leverkusen leikmaðurinn skorar með þrumuskoti í fjærhornið. Sjötta mark Söndru í 13 landsleikjum.

56. Stórhætta á danska markteignum en Danir ná að koma boltanum í burtu að lokum.

52. MARK - 2:1. Sending yfir íslensku vörnina, Nadie Nadim sleppur ein gegn Sonný inn við markteig og skorar. Þar með er þetta orðið galopið.

51. Dagný Brynjarsdóttir með skot úr þröngu færi en markvörðurinn ver.

50. Ísland fær hornspyrnu frá vinstri. Danir koma boltanum í burtu í annarri tilraun.

48. Pernille Harder með skot frá vítateig en hátt yfir mark Íslands.

47. Dagný Brynjarsdóttir  sleppur inní vítateiginn hægra megin en missir boltann aðeins of langt frá sér og danski markvörðurinn bjargar með úthlaupi.

46. Seinni hálfleikur er hafinn og nú leikur Ísland á móti vindinum. Engar skiptingar hjá Íslandi.

45. HÁLFLEIKUR -  og ansi góð staða. 2:0 fyrir Ísland eftir tvö mörk á fyrstu ellefu mínútunum.

45. Einni mínútu bætt við fyrri hálfleikinn.

39. Danir sækja af nokkrum krafti þessar mínúturnar. Skot frá vítateig en Sonný Lára grípur boltann örugglega.

34. Þarna fengu Danir sitt besta færi. Góð sókn, fyrirgjöf frá vinstri og skalli framhjá úr miðjum vítateignum.

31. Danir í skotfæri á miðri vítateigslínu en skotið geigar hressilega.

27. Katrín haltrar í átt að stúkunni eftir aðhlynningu hinum megin við völlinn. Virðist hafa tognað aftan í læri.

25. Skipting. Katrín Ómarsdóttir meiðist og fer af velli. Gunnhildur Yrsa  Jónsdóttir kemur í hennar stað.

18. Gæti verið að Glódís Perla Viggósdóttir hafi skorað seinna markið. Það er ekki á hreinu.

17. Fyrsta markskot Dana af um 20 m færi en Sonný Lára ver örugglega.

12. Ótrúleg byrjun íslenska liðsins og danska liðið virðist ekki eiga nein svör við hápressunni sem Freyr Alexandersson beitir undan vindinum.

11. MARK! 2:0.  Og annað mark! Katrín Ómarsdóttir  tekur hornspyrnu frá vinstri og Málfríður Erna Sigurðardóttir skorar með hörkuskalla í hægra hornið. Hennar fyrsta mark í 24 landsleikjum!

10. MARK!! 1:0. Elín Metta Jensen nýtir sér mistök í dönsku vörninni, kemst ein gegn markverðinum í vítateignum og skorar! Þriðja mark hennar í 15 landsleikjum.

9. Ísland leikur undan talsverðum vindi og sendingarnar fram vilja fyrir vikið vera of langar og enda hjá danska markverðinum.

8. Katrín Ómarsdóttir með fyrsta markskotið, af 20 m færi, en beint á markvörðinn.

6. Fyrsta sókn Dana og þeir fá hornspyrnu. Sonný Lára í markinu grípur boltann af öryggi.

4. Danir komast ekki útfrá miðjum eigin vallarhelmingi og nú fær Ísland aukaspyrnu hægra megin á vellinum. Katrín Ómarsdóttir sendir fyrir markið en Danir ná að skalla frá og létta pressunni.

2. Íslenska liðið pressar framarlega og fær fyrstu hornspyrnuna. Danir bægja hættunni frá.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Dómarinn í dag kemur alla leið frá Cook-eyjum í Eyjaálfu. Hún heitir Tupou Patia. Aðstoðardómararnir koma frá Samoa og Fiji.

0. Ísland vann Belgíu 2:1 í fyrstu umferðinni á miðvikudaginn og Danmörk sigraði Kanada 1:0.

0. Á Algarve-svæðinu er áfram sól en frekar svalt og nokkur vindur. Völlurinn lítur ágætlega út.

0. Freyr Alexandersson gerir tíu breytingar á byrjunarliði Íslands og aðeins Glódís Perla Viggósdóttir byrjar af þeim sem hófu Belgaleikinn.

0. Málfríður Erna Sigurðardóttir er í byrjunarliði Íslands í fyrsta sinn síðan í október 2011. Hún lék sinn fyrsta landsleik í hálft fimmta ár gegn Pólverjum í síðasta mánuði þegar hún kom inná sem varamaður.

0. Hrafnhildur Hauksdóttir frá Selfossi, sem leikur í stöðu vinstri bakvarðar, er í byrjunarliði Íslands í fyrsta sinn og spilar sinn annan landsleik. Hún kom inná  gegn Pólverjum.

Lið Íslands: Sonný Lára Þráinsdóttir - Elísa Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Hrafnhildur Hauksdóttir - Málfríður Erna Sigurðardóttir, Katrin Ómarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir - Elín Metta Jensen, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Sandra María Jessen.

Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir (m), Sandra Sigurðardóttir (m), Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Guðrún Arnardóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir, Andrea Rán Hauksdóttir.

Lið Danmerkur: Cecilie Sörensen - Theresa Nielsen, Simone Boye, Rikke Severecke, Line Röddik - Katrine Veje, Julie Trustrup, Pernille Harder, Line Sigvardsen, Johanna Rasmussen - Nadia Nadim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert