Jóhann til taks hjá Fylki

Jóhann Ólafur Sigurðsson
Jóhann Ólafur Sigurðsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Markvörðurinn Jóhann Ólafur Sigurðsson gæti komið við sögu hjá Fylkismönnum í fyrstu umferðum Íslandsmótsins í knattspyrnu en hann gekk í dag frá félagaskiptum til þeirra.

Jóhann lék með Fylki árið 2006 en hefur annars varið mark Selfyssinga lengst af. Hann lagði þó hanskana á hilluna haustið 2013 vegna náms erlendis.

Jóhann sagði við mbl.is að þetta væri aðeins varúðarráðstöfun. Hann er markvarðaþjálfari hjá Fylki, sem aðeins er með einn markmann í sínum hópi sem stendur, Ólaf Íshólm Ólafsson. „Ég er til taks ef eitthvað kemur fyrir Ólaf en vonandi leysast málin fljótlega," sagði Jóhann sem líklega verður varamarkvörður Fylkisliðsins þegar það mætir Stjörnunni í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla á mánudagskvöldið.

Jóhann er 29 ára og lék alla leiki Selfyssinga í úrvalsdeildinni árið 2010. Hann missti hinsvegar alveg af tímabilinu 2012 vegna meiðsla en þá lék Selfossliðið einnig í deildinni. Eftir að hafa spilað með liðinu í 1. deild 2013 hefur hann verið í fríi frá fótboltanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert