Náum lengra ef öllum í hópnum líður vel

Gunnleifur Gunnleifsson átti stórkostlegt tímabil í fyrra með Blikum.
Gunnleifur Gunnleifsson átti stórkostlegt tímabil í fyrra með Blikum. mbl.is/Eva Björk

Markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson átti líklega sitt besta keppnistímabil á ferlinum í fyrra þegar Breiðablik fékk aðeins 13 mörk á sig í 22 umferðum Pepsi-deildarinnar í knattspyrnu. Blikar höfnuðu í 2. sæti, aðeins tveimur stigum á eftir meisturum FH. Gunnleifur var fyrirliði FH þegar liðið varð Íslandsmeistari 2012.

Tímabilið í ár hefur hins vegar alla burði til þess að verða það eftirminnilegasta á ferlinum fyrir Gunnleif. Blikum er reyndar aðeins spáð 5. sæti en Gunnleifur er eini leikmaður Pepsi-deildarinnar sem á góða möguleika á að fá sæti í 23 manna landsliðshópi Íslands sem fer á EM í Frakklandi í sumar. Hópurinn verður tilkynntur 9. maí en í síðustu tveimur undankeppnum stórmóta hefur Gunnleifur nánast alltaf verið valinn.

Hundfúll ef ég verð ekki valinn

„Það yrðu gríðarleg vonbrigði ef ég yrði ekki í hópnum. Það er bara mjög eðlilegt. Það eina sem ég get gert er að reyna að standa mig og vonast til að ég verði valinn. Ég verð hundfúll ef ég verð ekki valinn og geðveikt glaður ef ég verð valinn,“ sagði Gunnleifur þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Hann segir veturinn ekki hafa verið neitt óvenjulegan, og þessi 40 ára gamli Kópavogsbúi segist ekki hafa horft meira til 9. maí en 1. maí á dagatalinu, en þá hefja Blikar Íslandsmótið með leik við Víking Ólafsvík.

„Ég reyni bara að hafa þetta eins og venjulega. Það er vænlegast að vera ekki að pæla í of mörgu og horfa ekki of langt fram í tímann. Ef maður stendur sig ekki fyrir félagið sitt á maður ekkert að vera valinn í landslið, svo að á meðan landsliðið er ekki að æfa eða spila hugsa ég bara um Breiðablik,“ sagði Gunnleifur.

„Ég er ekki tvítugur lengur og það er vænlegast að horfa bara á næsta leik, gera sitt besta þá, og svo kemur óumflýjanlega að 9. maí og þá skýrast málin,“ bætti Gunnleifur við.

Ítarlegt viðtal við Gunnleif má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert