Þjálfari lánaður til annars liðs

Valorie O´Brien þjálfar Selfoss í sumar en hún lék með …
Valorie O´Brien þjálfar Selfoss í sumar en hún lék með liðinu árin 2012 og 2013. mbl.is/Eva Björk

Þjálfari Selfoss í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu Valorie Nicole O´Brien mun leika með öðru liði hér á Íslandi í sumar, auk þess sem hún þjálfar Selfoss.

O´Brien var ráðin þjálfari Selfoss fyrir viku. Hún tekur við liðinu af Gunnari Borgþórssyni sem hafði þjálfað liðið síðustu þrjú sumur. Í dag var tilkynnt að O´Brien yrði lánuð til HK/Víkings og myndi leika með liðinu í 1. deildinni í sumar. Þórhildur Svava Svavarsdóttir, í meistaraflokksráði kvenna á Selfossi, staðfesti þetta í samtali við mbl.is.

„Hún er ráðin hingað í fullt starf sem aðalþjálfari meistaraflokks kvenna á Selfossi. Hún var ekki ráðin sem spilandi þjálfari en fékk leyfi til að spila með liði í 1. deild. Er það undir þeim formerkjum að hún mætir ekki á hverja einustu æfingu eða hvern einasta leik hjá þeim í sumar,“ segir Þórhildur.

O´Brien er öllum hnútum kunnug á Selfossi en hún lék með liðinu sumurin 2012 og 2013. Samtals lék hún 36 leiki í Pepsi-deildinni og skoraði 10 mörk.

„Það var alltaf útgangspunkturinn að hún ætlaði að koma til Íslands, þjálfa Selfoss-liðið og spila með einhverju liði í 1. deild,“ bætir Þórhildur við og tekur fram að það sé leyfilegt að spila með einu liði og þjálfa annað, af því að liðin eru ekki í sömu deild.

Þórhildur segir að það gæfi augaleið hvað O´Brien myndi gera ef Selfoss og HK/Víkingur mætast í bikarkeppninni í sumar. „Það gefur augaleið. Selfoss er númer eitt, tvö og þrjú hjá henni.“

Það hafi þó verið ákveðið frá byrjun að hún yrði ekki spilandi þjálfari í Pepsi-deildinni. „Eins og við settum það upp þá hefurðu ekkert pláss til að hugsa líka út í það að vera að spila. Við viljum að hún einbeiti sér að einu í einu. Hún er að þjálfa meistaraflokk kvenna en er að leika sér með HK/Víking. Þetta er hennar frítími og hún gæti alveg eins verið að spila golf eða hvað sem er,“ segir Þórhildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert