Atli nær stórum áfanga

Atli Guðnason spilar sinn 200. leik í efstu deild.
Atli Guðnason spilar sinn 200. leik í efstu deild. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Atli Guðnason er í liði FH sem mætir Þrótti í opnunarleik Íslandsmóts karla í knattspyrnu klukkan 16.00 á Þróttarvellinum í Laugardal og þar með nær hann stórum áfanga á ferlinum.

Þetta er 200. leikur Atla í efstu deild en hann hefur spilað þá alla með FH. Sá fyrsti var gegn Fylki á Fylkisvellinum 22. maí árið 2004. Það var eini leikur Atla með liðinu það tímabil og reyndist vera eini tapleikur FH-inga sem stóðu uppi um haustið sem Íslandsmeistarar í fyrsta skipti.

Atli hefur hinsvegar leikið stórt hlutverk í fimm sigrum FH á Íslandsmótinu en hann varð meistari með liðinu 2006, 2008, 2009, 2012 og 2015. Síðustu átta tímabil hefur hann ávallt spilað á bilinu 20-22 deildaleiki á ári, þrjú þeirra án þess að missa úr leik.

Hann er þriðji FH-ingurinn í sögunni sem nær 200 leikjum fyrir félagið í efstu deild. Á undan honum eru Atli Viðar Björnsson með 223 leiki og Freyr Bjarnason með 201 leik.

Atli er líka þriðji markahæsti FH-ingurinn í efstu deild með 61 mark. Fyrir ofan hann eru Atli Viðar Björnsson með 106 mörk og Hörður Magnússon með 84.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert