„Ég fékk hálfgert sjokk“

Sigurður G. Benónýsson með umbúðir um höndina eftir leikinn í …
Sigurður G. Benónýsson með umbúðir um höndina eftir leikinn í dag. mbl.is/Jóhann

Sigurður G. Benónýsson, sóknarmaður ÍBV, þurfti að fara af leikvelli í hálfleik í leik ÍBV og ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Sigurður meiddist á fremur óvenjulegan hátt en ÍBV vann leikinn 4:0.

Hann lenti í samstuði við varnarmann Skagamanna strax á 3. mínútu og lenti Skagamaðurinn óvart ofan á hendinni á Sigurði. Ekki vildi betur til en svo að Sigurður fékk risasár, eiginlega holu, á höndina.

„Ég kláraði fyrri hálfleikinn og svo kíktum við á þetta í hálfleik. Ég fékk hálfgert sjokk þegar ég sá holuna eftir takkann,“ sagði Sigurður við mbl.is eftir leikinn í dag.

„Ég kláraði fyrri hálfleikinn eiginlega bara á adrenalíni og svo var bara brunað með mig beint á spítala að honum loknum. Læknirinn vissi varla hvað hann átti að gera þegar hann sá þetta en deyfði mig og batt um þetta. Læknirinn sagði að ef þetta hefði farið einn eða tvo sentímetra til hliðar þá hefði ósæðin farið og einhver hefði þurft að stoppa blæðinguna,“ bætti Sigurður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert