Glenn og Arnar í tveggja leikja banni

Jonathan Glenn skoraði 12 mörk í deildinni í fyrra fyrir …
Jonathan Glenn skoraði 12 mörk í deildinni í fyrra fyrir ÍBV og Breiðablik. mbl.is/Golli

Jonathan Glenn, landsliðsmaður Trínidad og Tóbagó sem varð annar markahæsti leikmaður Pepsi-deildar karla í fyrra, má ekki spila tvo fyrstu leiki Breiðabliks á tímabilinu.

Glenn þarf að afplána tveggja leikja bann þar sem hann fékk rauða spjaldið fyrir að slá til mótherja í lokaleik Íslandsmótsins síðasta haust, gegn Fjölni.

Hann spilar þvi ekki með Kópavogsliðinu gegn Víkingi frá Ólafsvík á Kópavogsvelli í fyrstu umferðinni eða gegn Fylki í Árbænum í annarri umferð.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, getur heldur ekki stjórnað liðinu í þessum leikjum gegn Víkingi Ó. og Fylki. Hann fékk brottvísun í kjölfar atviksins í leik Breiðabliks og Fjölnis sem áður er getið og þarf að afplána tveggja leikja bann.

Hermann og Pablo í banni

Hermann Hreiðarsson mun ekki stjórna Fylki gegn Stjörnunni í fyrstu umferðinni. Hermann fékk tveggja leikja bann eftir brottvísun í leik gegn Víkingi R. í næstsíðustu umferðinni síðasta haust og á eftir að taka út seinni leikinn í því banni.

Pablo Punyed, landsliðsmaður El Salvador sem kom til ÍBV frá Stjörnunni í vetur, tók með sér eins leiks bann. Hann var rekinn af velli í leik Stjörnunnar og Vals í lokaumferðinni í haust og spilar því ekki með ÍBV gegn ÍA á Hásteinsvelli. vs@mbl.is

Þessi grein er úr 40 síðna fótboltablaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert