Gott að hefja mótið með sigri

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. mbl.is / Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við erum mjög ánægðir með að fá þrjú stig í fyrsta leik. Það var gott að ná að komast yfir eftir smá ströggl í byrjun leiksins. Markið kom eftir frábæra sendingu frá Davíð [Þór Viðarssyni] og [Lennnon] kláraði færið vel. Það var planið að ná að komast aftur fyrir vörnina hjá þeim. Við náðum að gera það í fyrsta markinu og hefðum mátt gera meira af því,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir 3:0 sigur liðsins gegn Þrótti Reykjavík í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Við vorum búnir að skoða leiki með Þrótti Reykjavík fyrir leikinn og ég vissi það að þeir væru með góða leikmenn innanborðs. Þeir voru vel skipulagðir og sköpuðu sér fín færi með hröðum sóknum. Við vissum að þetta yrði erfitt og mig langar að hrósa Þrótturum líka fyrir fína umgjörð hér í kvöld,“ sagði Heimir um lið Þróttar Reykjavíkur. 

„Við byrjuðum leikinn ekkert sérstaklega vel og vorum svolítið taugastrekktir í upphafi leiksins. Við náðum hins vegar að róa taugarnar og spila betur þegar leið á leikinn. Við vissum að þeir myndu opna sig til þess að freista þess að jafna metin. Við náðum að nýta plássið sem skapaðist þegar þeir fækkuðu í vörninni og skoruðum tvö lagleg mörk. Við kláruðum leikinn fagmannlega, en við getum bætt okkur og spilað betur,“ sagði Heimir um frammistöðu FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert