Óheppnir að jafna ekki

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. mbl.is/Eva Björk

„Við áttum að vera búnir að gera 1, 2 eða jafnvel 3 mörk áður en þeir skoruðu sitt fyrsta. Það er helst það sem að pirrar mann. Þeir nýttu sitt og fóru með þrjú stig,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir 2:1-tap liðsins gegn Fjölni í 1. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

„Mér fannst við vera ágætir í þessum leik. Við sköpuðum fullt af færum og spiluðum ágætis fótbolta, sérstaklega seinni partinn í leiknum, en mér fannst við hálfværukærir í þeim fyrri. Það vantaði meiri kraft í okkur. Við fengum reyndar 2-3 mjög góð færi, en þeir komust svo í upphlaup og refsuðu okkur illilega. Svo gekk okkur illa í seinni hálfleik en eftir að við lentum 2:0 undir fannst mér við koma vel inn í leikinn og vera óheppnir að jafna ekki,“ sagði Ólafur.

„Fjölnisliðið lokaði vel á okkur og við áttum í erfiðleikum með að komast í gegnum þá, en við komumst samt nokkrum sinnum í mjög góða sénsa. Fjölnisliðið er mjög gott lið,“ sagði Ólafur.

Færin í fyrri hálfleik sem Ólafur nefndi voru flest í eigu danska framherjans Rolf Toft sem er kominn á Hlíðarenda eftir að hafa leikið með Víkingi R. og Stjörnunni. Toft hefur stundum verið gagnrýndur fyrir að skila ekki nógu mörgum mörkum sem framherji, en Ólafur kvaðst ekki hafa neinar áhyggjur þó að Toft tækist ekki að nýta færin í kvöld:

„Það er nú bara einn leikur búinn. Hann fékk eitt dauðafæri og nýtti það ekki, en það er nú bara eins og gengur og gerist með framherja. Ég hef ekki stórar áhyggjur af því að við séum að detta í það að nýta ekki færin okkar. Það hefur ekki verið okkar stíll,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert