FH hefur titilvörnina vel

Steven Lennon, leikmaður FH, skorar fyrsta mark Pepsi-deildar karla árið …
Steven Lennon, leikmaður FH, skorar fyrsta mark Pepsi-deildar karla árið 2016. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkjandi Íslandsmeistarar, FH, hófu titilvörn sina vel þegar liðið mætti Þrótti Reykjavík sem er nýliði í deildinni í ár. Lokatölur í leiknum urðu 3:0 FH í vil, en það voru Steven Lennon, Atli Viðar Björnsson og Atli Guðnason sem skoruðu mörk FH. 

Emil Atlason komst næst því að skora fyrir Þrótt í fyrri hálfleik þegar hann slapp einn í gegnum vörn FH eftir klaufagang hjá Bergsveini Ólafssyni, miðverði FH, en Gunnar Nielsen, markvörður FH, bjargaði samherja sínum með góðu úthlaupi. Þá small boltinn í stönginni á marki FH þegar varnarmaður FH bjargaði með góðri tæklingu eftir góða sókn Þróttar.

Steven Lennon kom svo FH yfir þegar hann skoraði fyrsta mark Pepsi-deildar karla á 36. mínútu leiksins. Lennon fékk þá góða sendingu innfyrir vörn Þróttar frá Davíð Þór Viðarssyni. Lennon tók vel á móti boltanum og lagði boltann snyrtilega framhjá Trausta Sigurbjörnssyni, markverði Þróttar.

Þróttur setti góða pressu FH í upphafi síðari hálfleiks. Vilhjálmur Pálmason var nálægt því að jafna metin þegar hann komst í gott skotfæri, en Gunnar Nielsen varði fínt Vilhjálms vel. Emil Atlason skallaði síðan boltann hárfínt framhjá marki FH eftir hornspyrnu.

Steven Lennon var sprækasti leikmaður FH og skapaði fín færi fyrir samherja sína. Atli Guðnason fór afar illa með eitt slíkt þegar hann skaut boltanum langt framhjá í góðu skotfæri. Þá átti Lennon nokkrar fyrirgjafir eftir fína spretti sem fóru í gegnum vítateig Þróttar án þess að sóknarmenn FH næðu að færa sér fyrirgjafirnar í nyt.

Það voru kunnugleg nöfn sem sáu um að skora annað og þriðja mark FH. Atli Viðar Björnsson sem hafði skömmu áður komið inná sem varamaður tvöfaldaði forystu FH á 84. mínútu leiksins. Þórarinn Ingi Valdimarsson sendi þá hárnákvæma sendingu á fjærstöngina þar sem Atli Viðar var réttur maður á réttum stað og ýtti boltanum yfir línuna.

Atli Guðnason rak svo síðasta naglann í líkkistu Þróttar. Atli fékk sendingu út í teiginn frá Kristjáni Flóka Finnbogasyni sem var nýkominn inná sem varamaður. Atli var einn og óvaldaður í vítateig Þróttar og skorði með föstu og góðu skoti í fjærhornið.

Steven Lennon, leikmaður FH, í baráttu við Sebastian Svärd, leikmann …
Steven Lennon, leikmaður FH, í baráttu við Sebastian Svärd, leikmann Þróttar Reykjavíkur í leik liðanna í dag. mbl.is / Árni Sæberg
Þróttur 0:3 FH opna loka
90. mín. FH fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert