Einhver þarna uppi sem hjálpaði mér

Veigar Páll Gunnarsson.
Veigar Páll Gunnarsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Heilt yfir var ég var ánægður með leik okkar. Mér fannst við stjórna honum nær allan tímann. Ég fékk þau skilaboð frá Rúnari Páli að reyna að krydda aðeins sóknarleikinn og ég held að mér hafi tekist það,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson við mbl.is eftir sigur Stjörnunnar gegn Fylkismönnum í Pepsi-deildinni í kvöld.

Veigar Páll kom inná af rándýrum varamannabekk Stjörnumanna og tryggði sínum mönnum sigurinn með tveimur mörkum á síðustu 20 mínútum leiksins.

„Við erum með stóran og sterkan hóp þar sem enginn getur eignað sér sæti í byrjunarliðinu. Samkeppnin um allar stöður er hörð og ég held að við sem byrjuðum á bekknum í kvöld hafi allir orðið Íslandsmeistarar fyrir tveimur árum.

Ég held að það sé undir okkur komið hvernig við lítum á þetta. Ætla menn að detta í pirring eða fara í fýlu ef þeir eru ekki í byrjunarliðinu eða ætla menn að halda sér á tánum og standa allir saman hvernig svo sem liðið er skipað. Ég var jákvæður þótt ég byrjaði á bekknum og þegar ég fékk tækifæri vildi ég bara reyna að gera mitt besta og það var einhver þarna uppi sem hjálpaði mér,“ sagði Veigar Páll

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert