Milos ánægður með stigið

Milos Milojevic og Helgi Sigurðsson fara yfir stöðuna í kvöld.
Milos Milojevic og Helgi Sigurðsson fara yfir stöðuna í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er ánægður með eitt stig,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Víkings, í samtali við mbl.is í kvöld eftir að lið hans gerði markalaust jafntefli við KR á útivelli í 1. umferð Pepsí-deildar karla. 

„Þetta gekk alveg eins og við lögðum leikinn upp. Strákarnir lögðu sig 100% fram og með smá heppni hefðum við getað fengið þrjú stig,“ sagði Milos en hann lét ekki erfiðar aðstæður fara í taugarnar á sér en norðanáttin var bæði stíf og köld í vesturbænum þetta kvöldið. 

„Þetta er eins og þetta er. Það er maímánuður og vellirnir eru ekki alveg tilbúnir. Auk þess var rok og aðeins blautt. Þetta var því ekki frábært fótboltaveður né frábærar fótboltaaðstæður en það er eins fyrir bæði lið,“ sagði Milos á prýðilegri íslensku eins og Serbans er háttur en hann er orðinn íslenskur ríkisborgari.

Spurður um hvenær Davíð Örn Atlason verður leikfær sagðist Milos ekki geta sagt nákvæmlega til um það en sagði að útlitið væri betra en reiknað var með í fyrstu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert