Ég vil vera í svona umhverfi

Sara Björk Gunnarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Wolfsburg er gríðarlega stór klúbbur með mikinn metnað, sem vill vinna alla titla sem eru í boði. Ég er þannig leikmaður og karakter að ég vil vera í svona umhverfi. Auðvitað veit ég að þarna eru mikið fleiri og betri leikmenn til að velja úr en hjá Rosengård, og afar krefjandi að komast í byrjunarliðið, en ég er komin á þann tímapunkt að ég þarf svona áskorun til að geta bætt mig enn frekar sem leikmaður,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær.

Þýska félagið Wolfsburg, sem vann Meistaradeild Evrópu árin 2013 og 2014, og er komið í úrslitaleik keppninnar í ár, tilkynnti í gær að það hefði samið við Söru til næstu tveggja leiktíða. Sara, sem er uppalin í Haukum en lék einnig með Breiðabliki hér á landi, er á sinni sjöttu leiktíð hjá Rosengård (sem hét áður Malmö) í Svíþjóð, en mun fara til Wolfsburg þegar samningur hennar við Rosengård rennur út í lok júní. Hjá Rosengård hefur Sara fjórum sinnum orðið sænskur meistari og liðið hefur oft náð langt í Meistaradeild Evrópu, en Wolfsburg er sem fyrr segir eitt albesta, ef ekki besta, félagslið heims í dag.

„Mér fannst kominn tími á að breyta til og taka næsta skref. Þegar lið máttu hafa samband við mig [í janúar] þá var Wolfsburg fyrsta liðið til þess. Ég vildi breyta til, en þá aðeins til þess að fara í eitthvert enn betra lið en Rosengård, sem er ekkert auðvelt. Ég var mjög ánægð þegar Wolfsburg hafði samband, fann fyrir miklum áhuga frá forráðamönnum félagsins og fann strax mikinn áhuga sjálf á að fara í svona stórt félag,“ sagði Sara Björk í gær.

Nánar er rætt við Söru Björk í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert