Fyrirliði ÍBV kominn í gjaldgengt landslið

Avni Pepa kom til ÍBV fyrir síðasta tímabil og tók …
Avni Pepa kom til ÍBV fyrir síðasta tímabil og tók strax við fyrirliðastöðunni. Hann leikur áfram með Eyjamönnum í ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirliði Eyjamanna í knattspyrnunni, Avni Pepa, á nú möguleika á að taka þátt í næstu undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu með þjóð sinni eftir að henni var veitt full aðild að UEFA, Knattspyrnusambandi Evrópu, í dag.

Kósóvó var í dag veitt full aðild eftir atkvæðagreiðslu hjá UEFA þar sem atkvæðin féllu 28:24, Kósóvó í hag. Sem fyrr var það Serbía sem var í fararbroddi þeirra þjóða sem voru andvíg aðildinni en Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008.

Pepa, sem er 27 ára gamall og leikur nú sitt annað tímabil með ÍBV, hefur leikið þrjá landsleiki fyrir Kósóvó, af þeim sex leikjum sem liðið hefur spilað frá því það fékk leyfi frá FIFA til að spila þann fyrsta árið 2014.

Pepa er líka með norskt ríkisfang eftir að hafa verið lengi búsettur í Noregi og spilað með þarlendum liðum.

Fyrsti landsleikur Kósóvó var gegn Haiti í mars 2014 og endaði 0:0 en Pepa tók þátt í honum. Spilað var frammi fyrir 17 þúsund áhorfendum í Mitrovica. Síðan tapaði liðið 1:6 fyrir Tyrkjum og 1:3 fyrir Senegal en vann sinn fyrsta sigur gegn Oman, 1:0, í höfuðborginni Prishtina í september 2014.

Á síðasta ári lék liðið tvo leiki, vann Miðbaugs-Gíneu 2:0 og gerði 2:2 jafntefli við Albaníu en báðir leikirnir fóru fram í Prishtina. Næsti leikur liðsins er gegn Færeyingum 3. júní.

Kósóvó getur nú sótt um aðild að FIFA og gangi það hratt fyrir sig er möguleiki á að liðinu verði kippt inní undankeppni HM sem hefst í haust. Þá eru líkur á að liðinu yrði bætt í riðil Íslands en er annar tveggja fimm liða riðla í undankeppninni. Í honum eru Króatía, Ísland, Úkraína, Tyrkland og Finnland.

Margir knattspyrnumenn sem fæddir eru í Kósóvó hafa leikið fyrir aðrar þjóðir. Þar á meðal eru svissnesku landsliðsmennirnir Xherdan Shaqiri og Valon Behrami, Finninn Shefti Kuqi og Albaninn Lorik Cana. Þá hefði Adnan Januzaj, leilkmaður Manchester United, getað leikið fyrir Kósóvó en hann valdi að leika fyrir hönd Belgíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert