Tímamótamark hjá Veigari

Veigar Páll Gunnarsson hefur skorað 125 mörk samtals í deildakeppni …
Veigar Páll Gunnarsson hefur skorað 125 mörk samtals í deildakeppni á sínum langa ferli. Eggert Jóhannesson

Þegar Veigar Páll Gunnarsson kom Stjörnunni yfir gegn Fylki í viðureign liðanna í fyrstu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Samsung-vellinum í Garðabæ í gærkvöld var það sannkallað tímamótamark hjá þessum reynda sóknarmanni.

Þetta var 100. mark hans í efstu deild á ferlinum, þegar mörk hans á Íslandi og í Noregi eru lögð saman. Veigar, sem var nýkominn inná sem varamaður, bætti um betur og innsiglaði sigur Stjörnunnar með öðru marki og mörkin eru því orðin 101 talsins.

Veigar hefur skorað 30 af þessum mörkum á Íslandi, 16 fyrir Stjörnuna og 14 fyrir KR. Hann  gerði 71 mark í norsku úrvalsdeildinni á sínum tíma, 66 þeirra fyrir Stabæk en 3 fyrir Vålerenga og 2 fyrir Strömsgodset.

Þar fyrir utan hefur Veigar gert 24 mörk í næstefstu deild, 11 fyrir Stjörnuna á árunum 1998 og 1999, og svo 13 fyrir Stabæk árið 2005. Mörk Veigars í deildaleikjum á  ferlinum eru því orðin 125 talsins, í samtals 352 leikjum fyrir Stjörnuna, KR, Strömsgodset, Stabæk, Nancy og Vålerenga.

Í ár eru 20 ár síðan Veigar lék sinn fyrsta meistaraflokksleik á ferlinum. Hann var gegn Val á gamla Stjörnuvellinum, í efstu deild 15. september 1996. Veigar, sem þá var 16 ára gamall, kom inná fyrir Heimi Erlingsson á 64. mínútu leiksins.

Valur vann þann leik 4:2, en á meðal samherja Veigars í Stjörnuliðinu þann dag voru Rúnar Páll Sigmundsson, núverandi þjálfari Stjörnunnar, Bjarni Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, Goran Kristófer Micic, síðar þjálfari Stjörnunnar, og Baldur Þór Bjarnason, sem hafði leikið með landsliðinu nokkrum árum áður, en hann gerði bæði mörk liðsins í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert