„Hún las mig eins og Fréttablað gærdagsins“

Sonný Lára Þráinsdóttir ver vítaspyrnu Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur.
Sonný Lára Þráinsdóttir ver vítaspyrnu Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur. mbl.is/Golli

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar kunni samherja sínum í landsliðinu, markverðinum Sonný Láru Þráinsdóttur, litlar þakkir eftir að sú síðarnefnda varði frá henni vítaspyrnu og tryggði Breiðablik 4:3 sigur eftir vítaspyrnukeppni og titilinn "Meistarar meistaranna"

„Hún stóð í þessu horni og hún veit það vel að get ekki skotið í hitt hornið, þannig að hún las mig bara eins og Fréttablað gærdagsins í þessu víti,“ sagði Ásgerður eftir leik.

Aðstæður í kvöld voru vægast sagt erfiðar, hrollkalt og strekkingsvindur. „Þetta var eins íslenskt og það gerist, skítakuldi og rok. Aðstæðurnar voru auðvitað jafn erfiðar fyrir bæði lið og það var erfitt að hemja boltann sem skilaði sér í ekkert sérstökum fótbolta. Við vorum þó aðeins betri að mínu mati í seinni hálfleik og hefðum örugglega skapað okkur fleiri færi í fyrri hálfleik með svoleiðis spilamennsku.“

Ásgerður er spennt fyrir komandi fótboltasumri og telur breiddina vera að aukast í kvennafótboltanum.

„Við stefnum auðvitað á alla titla í sumar og ég held að það verði 5-6 lið sem bítist um þetta. Það er mjög jákvætt fyrir íslenska kvennafótboltann að fleiri en einhver tvö lið séu að berjast og stefna á titla, það styrkir bara deildina,“ sagði hálf frosin Ásgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert