Allt við suðumark hjá Reyni og Þorvaldi

Reynir Leósson er þjálfari HK.
Reynir Leósson er þjálfari HK. mbl.is/Ívar Benediktsson

Reynir Leósson, þjálfari HK, bar Þorvald Örlygsson, þjálfara Keflavíkur, nokkuð þungum sökum í viðtali eftir 1:1 jafntefli liðanna í fyrsta leik þeirra í 1. deild karla, Inkasso-deildinni í kvöld.

„Við erum með mikið af nýjum mönnum. Við tókum við búi þar sem það var bara erfitt. Það voru tveir leikmenn eftir á samning og þjálfarinn í Keflavíkurliðinu (Þorvaldur), tók þrjá leikmenn yfir til sín og vann í því að koma öðrum leikmönnum frá félaginu líka þannig að þetta var erfiður tími,” sagði Reynir Leósson í viðtali við Fótbolta.net og 433.is eftir leikinn.

Spurður í kjölfarið hvort hann væri að segja að Þorvaldur hefði hreinlega unnið í því að grafa undan HK-liðinu sagði Reynir:

„Neinei, þeir þekkja þá sögu sem hafa verið í kringum það, og ég fer ekkert meira út í það, en það gekk mikið á síðastliðið haust þegar ég tók við þessu liði,“ sagði Reynir.

Þorvaldur hló hins vegar í viðtali við sömu miðla þegar Reynir var sagður hafa sagt hann hafa gert lítið annað en að grafa undan HK-liðinu, sínum fyrrum lærisveinum, í vetur og beðið leikmenn að fara frá félaginu.

„Sagði hann það?” sagði Þorvaldur. „Ég svara ekki svona vitleysu. Ég get ekki stoppað menn ef þeir vilja fara frá HK. Ég er ekki að grafa undan neinum. Ég get alveg lofað þér því,” sagði Þorvaldur áður en hann fór að skellihlæja og hélt áfram: „Ég hef nú aldrei heyrt annað eins bull,“ sagði Þorvaldur hlæjandi.

Hann hlóð einnig í létt skot á Reyni á móti og sagði honum að einbeita sér að sínu liði en ekki að tala um hvað Keflavík ætti að ná að gera í sumar.

„Reynir þjálfar ekki Keflavík og hann verður bara að einbeita sér að sínu liði. Ef hann vill starfið þá hringir hann bara í formanninn. Hann er nú mjög góður að hringja í formenn í landinu,“ sagði Þorvaldur. 

Þorvaldur Örlygsson þjálfar lið Keflavíkur í dag.
Þorvaldur Örlygsson þjálfar lið Keflavíkur í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert