Jafnt í Kórnum, Grindavík vann

Magnús Þórir Matthíasson úr Keflavík og HK-ingarnir Leifur Andri Leifsson …
Magnús Þórir Matthíasson úr Keflavík og HK-ingarnir Leifur Andri Leifsson og Kristófer Eggertsson. mbl.is/Golli

Grindvíkingar urðu fyrstir til að innbyrða þrjú stig í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, á þessu tímabili þegar þeir sigruðu Hauka 3:2 á heimavelli í kvöld. HK og Keflavík skildu jöfn, 1:1, í Kórnum í Kópavogi.

Aron Jóhannsson skoraði fyrsta mark tímabilsins í deildinni þegar hann kom Haukum yfir í Grindavík. Alexander Veigar Þórarinsson jafnaði fyrir hlé og snemma í seinni hálfleik komst Grindavík í 3:1 þegar Hákon Ívar Ólafsson og Gunnar Þorsteinsson skoruðu með stuttu millibili. Þórður Jón Jóhannesson minnkaði muninn fyrir Hauka skömmu fyrir leikslok.

Í Kórnum var jafnræði lengi vel og HK náði forystunni á 62. mínútu þegar Ragnar Leósson skoraði úr vítaspyrnu eftir að Hákon Ingi Jónsson var felldur. Tíu mínútum fyrir leikslok náði Sigurbergur Elísson að jafna fyrir Keflavík, 1:1, og þar við sat en Keflvíkingar voru sterkari seinni hluta leiksins. Guðjón Árni Antoníusson Keflvíkingur fékk rauða spjaldið í uppbótartíma leiksins.

Hinir fjórir leikirnir í fyrstu umferð fara allir fram á morgun.

Úrslit í leikjunum:

HK - Keflavík          1:1 (Ragnar Leósson 62.(víti) -- Sigurbergur Elísson 80.)
Grindavík - Haukar  3:2 (Alexander V. Þórarinsson 34., Hákon Ívar Ólafsson 52., Gunnar Þorsteinsson 57. -- Aron Jóhannsson 13., Þórður Jón Jóhannesson 84.)

90. Leik lokið í Grindavík þar sem heimamenn sigra Hauka, 3:2.

90. Leik lokið í Kórnum þar sem HK og Keflavík skilja jöfn, 1:1.

90. RAUTT - Guðjón Árni Antoníusson varnarmaður Keflavíkur fær gult spjald og svo rautt. HK-ingur liggur góða stund eftir brot hans.

90. Kominn uppbótartími í báðum leikjum. Spenna.

89. Sigurbergur Elísson Keflvíkingur með hörkuskot, Arnar Freyr í marki HK ver en miðvörðurinn Marc McAusland skýtur í hliðarnetið á marki HK úr dauðafæri!

85. Arnar Freyr í marki HK lokar vel á Sigurberg Elísson sem var kominn í hættulega stöðu vinstra megin í vítateignum. Bjargaði með úthlaupi.

84. MARK í Grindavík, 3:2. Haukar minnka muninn, Þórður Jón Jóhannesson skorar eftir sendingu Alexanders Freys Sindrasonar.

84. Hjá HK kemur inná Sveinn Aron Guðjohnsen í sínum fyrsta meistaraflokksleik á Íslandsmóti. Sonur Eiðs Smára.

80. MARK í Kórnum, 1:1. Keflavík jafnar metin. Sigurbergur Elísson fær boltann rétt innan vítateigs og hamrar hann óverjandi í hægra hornið.

78. Besta færi Keflavíkur í seinni hálfleik. Hörður Sveinsson skallar rétt framhjá eftir sendingu Magnúsar Þóris Matthíassonar frá vinstri.

75. HK er áfram 1:0 yfir gegn Keflavík sem hefur ekki náð að ógna að ráði eftir markið. Grindavík er 3:1 yfir og með leikinn gegn Haukum í hendi sér.

62. MARK Í KÓRNUM, 1:0. HK fær vítaspyrnu þegar Hákon Ingi Jónsson er felldur í vítateignum. Ragnar Leósson fer á punktinn og skorar örugglega.

57. MARK í Grindavík, 3:1. Nú eru Grindvíkingar komnir í þægilega stöðu. Gunnar Þorsteinsson heldur uppá heimkomuna með skallamarki eftir fyrirgjöf Magnúsar Björgvinssonar.

55. Keflvíkingurinn Sigurbergur Elísson kemst í gott skotfæri á miðri vítateigslínu HK en skýtur beint á Arnar Frey í markinu.

52. MARK í Grindavík, 2:1. Nú kemst Grindavík yfir, Hákon Ívar Ólafsson skorar eftir sendingu Magnúsar Björgvinssonar.

52. Skyndisókn Keflavíkur uppúr aukaspyrnu HK  við vítateiginn hinum megin. Magnús Þórir Matthíasson með fast skot sem Arnar Freyr Ólafsson í mark HK ver í horn. Uppúr horninu á Einar Orri Einarsson skemmtilega klipputilraun að marki HK en Arnar ver uppvið þverslána og heldur boltanum.

50. Kristófer Eggertsson HK-ingur með fast skot að marki Keflavíkur eftir hornspyrnu. Beitir Ólafsson ver og varnarmenn koma boltanum í burtu.

46. Seinni hálfleikur er hafinn bæði í Kórnum og í Grindavík.

45. Hálfleikur í Grindavík þar sem staðan er 1:1 hjá Grindavík og Haukum.

45. Hálfleikur í Kórnum. HK - Keflavík 0:0 í jöfnum leik þar sem Keflavík var sterkari framan af en HK seinni hlutann.

40. Stimpingar í vítateig Keflavíkur og því lyktar með því að einn úr hvoru liði fær gula spjaldið.

38. Jóhannes Karl Guðjónsson sleppur inní vítateig Keflavíkur eftir laglegan sprett og þríhyrningaspil. Fellur þar - vill vítaspyrnu en Guðmundur Ársæll dómari er ekki á sama máli. HK sækir af krafti þessar mínúturnar í Kórnum.

34. MARK - 1:1 í Grindavík. Það er Alexander Veigar Þórarinsson sem jafnar eftir sendingu Jósefs Kristins Jósefssonar.

34. HK með skothríð að marki Keflavíkur. Sigurbergur Elísson bjargar á marklínu eftir skalla Ragnars Leóssonar. Boltinn hrekkur út fyrir vítateig og Jóhannes Karl Guðjónsson á þrumufleyg  sem Beitir Ólafsson í marki Keflavíkur ver vel í horn.

33. Kristófer Eggertsson HK-ingur í góðu færi rétt utan markteigs Keflvíkinga en varnarmaður nær að bjarga með því að kasta sér fyrir skotið.

29. Miðverðir Keflavíkur eiga í erfiðleikum með Hákon Inga Jónsson framherja HK sem fær sína aðra aukaspyrnu rétt utan vítateigs með stuttu millibili. Þær hafa hinsvegar báðar farið í súginn. Jóhannes Karl Guðjónsson spilandi aðstoðarþjálfari HK lætur yngri menn um að spyrna! Einhvern tíma hefði hann tekið þessar báðar.

23. Magnús Þórir Matthíasson, sem er fremsti maður Keflavíkur í kvöld, fær gula spjaldið fyrir meintan leikaraskap. Féll í vítateig HK eftir skyndisókn Keflvíkinga. Staðan er 0:0.

22. Fyrri hálfleikur hálfnaður í Kórnum þar sem Keflvíkingar sækja heldur meira eftir því sem liðið hefur á hálfleikinn.

13. MARK í Grindavík, 0:1. Fyrsta mark 1. deildar í ár skorar Aron Jóhannsson fyrir Hauka með hörkuskoti utan vítateigs.

10. Í Grindavík leika Haukar undan vindi og hafa verið meira með boltann til að byrja með, samkvæmt fótbolta.net.

9. Fyrsta færið í Kórnum þar sem Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði Keflavíkur nær ekki að stýra boltanum á markið af stuttu færi eftir hornspyrnu. Annars jafnræði með liðunum þessar fyrstu mínútur og sótt á báða bóga.

1. Flautað til leiks í Kórnum hjá HK og Keflavík og leikur Grindavíkur og Hauka er líka hafinn.

0. Keflvíkingar spila í kvöld sinn fyrsta leik utan efstu deildar í þrettán ár, eða frá haustinu 2003, þegar þeir höfðu eins árs viðdvöl í 1. deildinni. En þó 13 ár séu liðin eru þrír leikmenn í byrjunarliði Keflavikur í kvöld sem voru í byrjunarliðinu í síðasta leik liðsins í 1. deild haustið 2003. Það eru Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Guðjón Árni Antoníusson og Jónas Guðni Sævarsson. Og alveg eins og þá er Hörður Sveinsson á meðal varamanna. Það er því gríðarleg reynsla í þessu Keflavíkurliði sem er mætt í Kórinn í kvöld.

0. Reynir Leósson þjálfari HK þreytir í kvöld frumraun sína sem meistaraflokksþjálfari á Íslandsmóti. Reynir var aðstoðarþjálfari Fylkis á síðasta tímabili. 

0. HK spilar heimaleiki sína í Kórnum þriðja árið í röð, eða frá því félagið kom aftur upp í 1. deild. Þá leikur HK í nýjum búningum í kvöld. Þeir eru þverröndóttir, rauðir og hvítir, og minna mjög á grænu og hvítu búningana sem ÍK, forveri HK í knattspyrnunni, notaði á sínum tíma.

0. Þorvaldur Örlygsson sem hefur þjálfað HK undanfarin tvö ár mætir nú í Kórinn með lið Keflvíkinga. Þangað fékk hann þrjá leikmenn frá HK í vetur, Beiti Ólafsson markvörð, Axel Kára Vignisson og Guðmund Magnússon.

0. Lúkas Kostic var á sínum tíma leikmaður og þjálfari Grindavíkur, m.a. þegar liðið komst í fyrsta skipti í efstu deild og lék til úrslita í bikarnum haustið 1994. Hann mætir til Grindavíkur sem þjálfari Hauka.

Keflvíkingar féllu úr úrvalsdeildinni í fyrra en HK hafnaði í 8. sæti 1. deildar. Grindavík og Haukar enduðu þá í 5. og 6. sæti og tvö stig skildu liðin að.

Allar breytingar á liðunum má sjá hér.

Lið HK: Arnar Freyr Ólafsson -  Birkir Valur Jónsson, Leifur Andri Leifsson, Guðmundur Þór Júlíusson, Ingimar Elí Hlynsson, Jökull I. Elísabetarson, Jóhannes Karl Guðjónsson, Ragnar Leósson, Kristófer Eggertsson, Hákon Ingi Jónsson, Árni Arnarson.
Lið Keflavíkur: Beitir Ólafsson - Guðjón Árni Antoníusson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Mark McAusland, Axel Kári Vignisson, Jónas Guðni Sævarsson, Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic, Magnús Þórir Matthíasson, Haukur Baldvinsson, Sigurbergur Elísson.

Lið Grindavíkur: Anton Ari Einarsson - Hákon Ívar Ólafsson, Björn Berg Bryde, Matthías Örn Friðriksson, Rodrigo Gomes, Francisco Cruz, Gunnar Þorsteinsson, Jósef K. Jósefsson, Alexander V. Þórarinsson, Óli Baldur Bjarnason, Magnús Björgvinsson.
Lið Hauka: Terrance Dieterich - Gunnar Jökull Johns, Gunnlaugur F. Guðmundsson, Daníel S. Gulaugsson, Alexander Freyr Sindrason, Alexander Helgason, Aron Jóhannsson, Arnar Aðalgeirsson, Aran Nganpanya, Haukur Ásberg Hilmarsson, Elton Renato Livramento.

Þorvaldur Örlygsson stýrði Keflavík í kvöld gegn HK, sem hann …
Þorvaldur Örlygsson stýrði Keflavík í kvöld gegn HK, sem hann þjálfaði undanfarin tvö ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert