Ari sendur í EM-frí

Ari Freyr Skúlason í landsleik.
Ari Freyr Skúlason í landsleik. Ljósmynd/Foto Olimpik

Danska knattspyrnufélagið OB hefur gefið Ara Frey Skúlasyni frí frá tveimur síðustu leikjum liðsins í dönsku úrvalsdeildinni til þess að hann geti fengið nægilega hvíld og búið sig sem best undir Evrópukeppnina í Frakklandi með íslenska landsliðinu.

OB tilkynnti þetta á vef sínum og þar segir að Ari hafi fengið leyfið eftir viðræður við íþróttastjórann Jesper Hansen og yfirþjálfarann Kent Nielsen. Fréttin er birt undir fyrirsögninni: ÁFRAM ÍSLAND.

Þar segir að lið OB sé vel í sveit sett núna í lok tímabilsins því nánast ekkert sé um meiðsli í hópnum og vel sé hægt að fylla í skarð Ara í síðustu tveimur leikjunum. Það sé líka mikilvægt að Ari fái einhverja hvíld, þegar horft er til þess að hann fái lítið sem ekkert sumarfrí að lokinni Evrópukeppninni.

OB er í 7. sæti þegar tveimur umferðum er ólokið og fer ekki ofar en í sjötta sæti og ekki neðar en í áttunda sæti. Liðið mætir AGF á útivelli á fimmtudaginn og AaB á heimavelli í lokaumferðinni á sunnudaginn.

Hallgrímur Jónasson er fyrirliði OB en hann er einn þeirra leikmanna sem eru til taks ef meiðsli koma upp í íslenska EM-hópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert