„Ekki auðvelt að fara í Hafnarfjörðinn“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Stjörnunnar.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, leikmaður Stjörnunnar. Eva Björk Ægisdóttir

Titilvörn Stjörnunnar í Borgunarbikarnum hefst í Kaplakrika þar sem liðið mætir FH. „Það er ekki langt fyrir okkur að fara, aðeins yfir hæðina til nágranna okkar í Hafnarfirðinum,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar við mbl.is í dag.

„FH hefur byrjað gríðarlega vel og ef ég man rétt er það eina liðið sem hefur ekki fengið á sig mark í deildinni þannig að þetta verður gríðarlega erfiður leikur.“ Ásgerður man rétt, FH er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki Pepsi-deildarinnar og á enn eftir að fá á sig mark. 

Ásgerður vill ekki vanmeta FH sem er komið upp í Pepsi-deildina á ný eftir eins árs vist í 1. deildinni. „Það er ekki auðvelt að fara yfir í Hafnarfjörðinn þótt margir haldi það. Við sáum það í síðustu umferð þegar Blikarnir áttu í erfiðleikum með FH.“

Ásgerður neitar því ekki að það hefði verið spennandi að mæta liði úr 1. deildinni í 16-liða úrslitum. „Það hefði verið óskandi að fá eitthvað nýtt lið, sem maður spilar ekki oft við. Það hefði verið svolítið rómantískt að fara austur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert