„Við erum mættar“

Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA, var ánægð með baráttuna hjá sínu …
Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA, var ánægð með baráttuna hjá sínu liði í kvöld. mbl.is/Skapti

Karen Nóadóttir, fyrirliði Þórs/KA, var sæmilega sátt eftir að liðið gerði 1:1 jafntefli við Breiðablik í 3. umferð Pepsi-deildar kvenna í Kópavogi í kvöld. Eftir þrjár umferðir eru norðanstúlkur með fjögur stig.

„Ég er pínu svekkt af því að við komum hingað til að taka öll þrjú stigin sem eru í boði. Við förum þannig í alla leiki en við tökum þessu stigi fagnandi. Núna erum við að segja að við erum ekki bara í þessari deild til að fá að vera með og leika okkur. Við erum mættar og ætlum að gera einhverja hluti í sumar og því er sterkt að ná stigi á þessum erfiða útivelli,“ sagði Karen við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

„Við ætluðum að berjast og passa okkur að leyfa þeim ekki að stjórna leiknum. Planið var að koma þeim pínu á óvart með því að setja pressu á þær og ég held að það hafi gengið. Þetta leit kannski rólega út en þetta var hörkubarátta og „fightingur“ inni á vellinum,“ bætti Karen við þegar blaðamaður spurði hana hvort henni hafi fundist leikurinn rólegur.

Karen er bjartsýn á framhaldið hjá Akureyringum. „Við eigum einn leik eftir fyrir hlé. Það eru bara þrjú stig í boði þar og við tökum þau,“ sagði Karen að lokum en Þór/KA tekur á móti KR á laugardag áður en mánaðarhlé verður gert á Pepsi-deild kvenna vegna landsliðsverkefna kvennalandsliðsins og Evrópumóts karla í knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert