Bikarmeistararnir í 16 liða úrslit

Sigurður Egill Lárusson og Viðar Ari Jónsson eigast hér við.
Sigurður Egill Lárusson og Viðar Ari Jónsson eigast hér við. mbl.is/Árni Sæberg

Bikarmeistarar Vals eru komnir í 16 liða úrslit Borgunarbikars karla. Valsmenn mættu Fjölni í Grafarvogi og unnu 1:0 í frekar bragðdaufum leik. Guðjón Pétur Lýðsson  skoraði sigurmarkið í fyrri hálfleik.

Það var búist við hörkuslag þessara tveggja Pepsi-deildar liða en leikurinn náði ekki alveg að standa undir þeim væntingum. Það dró til tíðinda á 22. mínútu þegar Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals féll eftir snertingu í vítateig Fjölnis. Snertingin var ekki mikil né gróf en dómari leiksins, Pétur Guðmundsson var handviss í sinni sök og dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu.

Guðjón Pétur Lýðsson tók vítið en Steinar  Örn Gunnarsson varði skotið glæsilega alveg út við stöng. Því miður fyrir Steinar og Fjölnismenn, þá tók Guðjón Pétur frákastið og skoraði af öryggi. Steinar þurfti síðan að fara af leikvelli meiddur í lok fyrri hálfleiks og Jökull Blængsson tók stöðu hans í markinu.

Seinni hálfleikur var lengstum drepleiðinlegur áhorfs. Menn lögðu sig vissulega alla fram en gekk illa að búa til góð marktækifæri. Innkoma Igors Jugovic á 71. mínútu kveikti þó örlítið í heimamönnum, sem fengu nokkur ágætis hálffæri. Fjölnismenn náðu þó ekki að skora markið sem hefði tryggt framlengingu og Valsmenn verða í pottinum þegar dregið verður í 16 liða úrslit bikarkeppninnar.

Fjölnir 0:1 Valur opna loka
90. mín. Þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert