„Gríðarleg vonbrigði“

Magnús Þórir Matthíasson og félagar hans í Keflavík eru úr …
Magnús Þórir Matthíasson og félagar hans í Keflavík eru úr leik. mbl.is/Styrmir Kári

Magnús Þórir Matthíasson, leikmaður Keflvíkinga, var að vonum ekki kátur með að vera fallinn úr keppni í Borgunarbikarnum í ár og sagði 2:1-tapið í kvöld gegn Fylkismönnum vonbrigði.

Ragnar Bragi Sveinsson og Víðir Þorvarðarson gerðu mörkin fyrir Fylki áður en Magnús Sverrir Þorsteinsson minnkaði muninn undir lok leiks.

„Gríðarleg vonbrigði og sérstaklega þar sem það er fínt jafnvægi á liðinu þegar við fáum bæði mörkin á okkur. Þetta er ekki líkt okkur. Liðin eru nokkuð sambærileg að styrkleika og ef eitthvað erum við bara betri en þeir. En við fáum á okkur þessi tvö klaufalegu mörk í fyrri hálfleik og þurfum að elta eftir það,“ sagði Magnús við mbl.is.

„Vendipunktur kannski annað markið hjá þeim en við þurftum bara eitt mark til að koma okkur aftur inn í leikinn og hefðum átt að vera búnir að því miklu fyrr. Ég fékk þarna fín færi sem ég hefði átt að nýta betur. En við höldum bara áfram og það er erfiður „Derby“-leikur á laugardaginn,“ sagði Magnús eftir leik og vísaði þar í leik gegn Grindvíkingum í Inkassodeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert