Gunnar hugsaði: Hvað ef....?

Gunnar Borgþórsson til hægri.
Gunnar Borgþórsson til hægri. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Gunnar Borgþórsson, þjálfari 1. deildarliðs Selfoss, gat leyft sér að vera ánægður í kvöld eftir að hafa slegið KR út úr 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í fótbolta.

Selfoss hafði betur 2:1 eftir framlengdan leik á Alvogen-vellinum. „Já já maður leyfði sér að dreyma um þessi úrslit. Maður hugsar stundum í rólegheitunum: Hvað ef.....? 

Við settum upp góða leikáætlun og höfðum trú á henni,“ sagði Gunnar en hann hafði fylgst með síðustu leikjum KR-liðsins og skoðað hvernig KR-ingar sækja og verjast til að undirbúa liðið sitt sem best fyrir bikarleikinn. 

Hvað fannst Gunnari ráða úrslitum í kvöld? „Vilji. Ég held það. Þótt það sé kannski klisja að tala um hjarta og vilja. Við ætluðum að vinna og vorum áræðnir. Við fórum inn í leikinn vitandi að við erum minna liðið og sættum okkur við það. Þegar við fundum að það gæti gerst að við myndum vinna, og náðum að skora, þá vorum við bara „all inn“ eftir það. Við ræddum ekkert annað eftir venjulegan leiktíma en að við ætluðum að klára leikinn með sigri. Við ætluðum bara að fara í pressu og klára dæmið,“ sagði Gunnar Borgþórsson í samtali við mbl.is í Frostaskjólinu í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert