„Vorum miklir klaufar“

Bjarni Guðjónsson
Bjarni Guðjónsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Við nýttum ekki færin okkar og gáfum þeim ódýr mörk sem kostuðu okkur leikinn,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, í samtali við fjölmiðla að bikarleiknum loknum gegn Selfossi í kvöld. Selfoss sigraði 2:1 og er komið áfram í 16-liða úrslit en KR er úr leik. 

Bjarni sagði KR-inga ekki hafa vanmetið 1. deildarliðið: „Ég held að við höfum ekki gert það. Við sköpuðum okkur fullt, fullt af færum. Vorum ákafir og unnum annan boltann. Vorum nánast með boltann allan fyrri hálfleik. Skölluðum í stöngina tvisvar í leiknum. Áttum einnig fullt af skotum inni í teig sem við nýttum einfaldlega ekki. Ég held að aðstæðurnar séu aðrar en þær að við höfum verið með eitthvað vanmat.“

Spurður um sigurmark Selfyssinga sem kom eftir skyndisókn þegar aðeins fimm mínútur voru eftir af framlengingunni þá sagði Bjarni þar hafa átt sér stað klúður hjá hans mönnum. „Við vorum náttúrlega með marga frammi til að reyna að ná í mark. Þá kemur löng sending út og við förum ekki í fyrsta boltann og erum seinir að koma okkur til baka í vörnina. Þeir voru fljótir og við miklir klaufar í varnarleiknum því við fengum tækifæri eftir tækifæri til að hreinsa boltann í burtu en tókum ekki þau tækifæri,“ sagði Bjarni Guðjónsson ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert