Sáu gullnámu í Ólafsvík

Jeannette Williams teygir sig í boltann í leik gegn Breiðabliki …
Jeannette Williams teygir sig í boltann í leik gegn Breiðabliki í 2. umferð. mbl.is/Ófeigur

„Hún er búin að vera stórkostleg í þessum fyrstu leikjum og þeir sýna bara úr hverju hún er gerð. Það býr virkilega mikið í henni,“ sagði Sveinbjörg Andrea Auðunsdóttir um bandaríska markvörðinn Jeannette Williams, liðsfélaga sinn hjá FH í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Williams er sá leikmaður sem Morgunblaðið varpar ljósi á nú þegar þriðju umferð deildarinnar er lokið.

Williams er 27 ára gömul og hefur leikið á Íslandi frá árinu 2013. Áður var hún markvörður Robert Morris-háskólans í Bandaríkjunum, og FC Indiana í næstefstu deild Bandaríkjanna 2011. Williams tók sér stutt hlé frá fótbolta og einbeitti sér að þjálfun, eftir tímann hjá Indiana, en komst svo í samband við umboðsmann sem stakk upp á því að hún flyttist á Snæfellsnes og spilaði fyrir Víking Ólafsvík, í næstefstu deild Íslands. Williams sló til og hefur kunnað afar vel við sig hér á landi. Eftir þrjár leiktíðir með Víkingi, sem reyndar mörkuðust af krossbandsslitum í hné fyrsta árið, gekk hún í raðir FH í vetur og hefur nú leikið sína fyrstu þrjá leiki í Pepsi-deildinni. Williams hefur haldið hreinu í þeim öllum, gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks, ÍA og KR.

„Hún er mjög örugg. Maður treystir henni og það er mjög þægilegt að spila með henni,“ sagði Sveinbjörg, og tekur undir að Williams hafi sýnt magnaða takta í fyrstu leikjunum: „Hún er á einhverju öðru plani finnst manni. Hún er snögg í hreyfingum, góð í loftinu, örugg niðri, með góð útspörk... hún er bara örugg á öllum sviðum,“ sagði Sveinbjörg.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert