Stjörnusigur í maraþonleik

Þorri Geir Rúnarsson og Gísli Eyjólfsson í baráttu um boltann …
Þorri Geir Rúnarsson og Gísli Eyjólfsson í baráttu um boltann á Samsungvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjarnan tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu þegar liðið sigraði Víking Ólafsvík, 9:8 eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni, í Garðabænum í kvöld.

Liðunum gekk erfiðlega að skapa sér færi í fyrri hálfleik. Gestirnir lágu til baka og reyndu að sækja hratt þegar færi gáfust til þess. Alfreð Hjaltalín komst næst gestanna að skora á 29. mínútu þegar Jóhann Laxdal varði skot hans á línu.

Veigar Páll Gunnarsson þrumaði knettinum í þverslá eftir aukaspyrnu á 36. mínútu og tveimur mínútum síðar varði Martinez í marki gestanna aðra aukaspyrnu Veigars. Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik markalaus.

Það voru einungis fimm mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar gestirnir komust yfir. William Domingues fékk boltann rétt fyrir utan vítateig og smellti boltanum glæsilega í markið. Níu mínútum síðar jöfnuðu heimamenn metin. Veigar Páll Gunnarsson gaf frábæra sendingu inn í teig á Jeppe Hansen. Daninn tók boltann á lofti og jafnaði.

Stjörnumenn voru nánast ennþá að fagna markinu þegar gestirnir Víkingar skoruðu annað mark sitt. Pape Mamdou Faye fékk boltann á vinstri kantinum, stakk Grétar Sigfinn Sigurðsson af, komst einn gegn Herði í markinu og skoraði af miklu öryggi.

Stjörnumenn reyndu að sækja eftir markið en gekk ákaflega illa að skapa góð færi. Jeppe Hansen fékk þó ákjósanlegt færi á 74. mínútu, ekki ólíkt markinu sem hann skoraði en hann skaut yfir markið í þetta skiptið.

Varamaðurinn Guðjón Baldvinsson jafnaði metin tveimur mínútum fyrir leikslok. Hann skallaði þá boltann inn eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar.

2:2 eftir 90 mínútur og því þurfti að framlengja í Garðabænum.

Hvorugu liði tókst að skora í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Þar þurfti átta vítaspyrnur til að fá fram úrslit en Stjarnan hafði betur að lokum og er komin í 16-liða úrslit.

Stjarnan 9:8 Víkingur Ó. opna loka
120. mín. Egill Jónsson (Víkingur Ó.) skorar úr víti Upp í hornið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert